Erlent

Á­kærður fyrir fjórar nauðganir

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Høiby er stjúpsonur Hákonar, norska krónprinsins.
Høiby er stjúpsonur Hákonar, norska krónprinsins. EPA

Maríus Borg Høiby, stjúpsonur Hákonar krónprins Noregs, hefur verið ákærður í 32 ákæruliðum, þar af fyrir fjórar nauðganir gegn fjórum konum. Hann er einnig ákærður fyrir ofbeldi í nánu sambandi gegn fyrrverandi kærustu sinni Nora Haukland.

Sturla Henriksbø saksóknari í Noregi greindi frá efni ákærunnar á blaðamannafundi í Osló í dag, en hann segir að málið sé umfangsmikið og alvarlegt.

„Þetta mál er alvarlegt. Nauðgun og ofbeldi í nánu sambandi eru alvarlegir glæpir sem geta skilið eftir sig stór sár og eyðilagt líf fólks,“ sagði Henriksbø.

Maríus er einnig ákærður fyrir ofbeldisbrot gegn annarri fyrrverandi kærustu.

Morðhótanir og svefnnauðgun

Allar hinar meintu nauðganir eru skilgreindar sem svokallaðar svefnnauðganir í ákæru saksóknara.

Maríus er einnig ákærður fyrir morðhótanir, líkamsárás gegn opinberum starfsmanni og brotum gegn umferðarlögum.

„Sú staðreynd að Maríus sé hluti af konungsfjölskyldunni á að sjálfsögðu ekki að hafa þau áhrif að hann fái sérmeðferð hjá okkur, hvorki harðari eða mýkri,“ sagði Henriksbø á fundinum.

Gert er ráð fyrir því að mál Maríusar fari fyrir dóm í miðjum janúar, og að málsmeðferð muni taka um sex vikur.

Meðal þess sem Maríus Borg Høiby hefur verið ákærður fyrir er eftirfarandi:

  • Nauðgun með samræði
  • Tvær nauðganir án samræðis
  • Fjögur tilfelli af kynferðislegu áreiti eða öðru kynferðisofbeldi
  • Eitt tilfelli af ofbeldi í nánu sambandi
  • Tvær líkamsárásir
  • Eitt skemmdarverk
  • Ein morðhótun
  • Fimm brot gegn nálgunarbanni
  • Áreiti gegn lögreglumanni
  • Fimm brot gegn umferðarlögum

Neitar sök

Norsk lögregluyfirvöld segja að Høiby hafi að mestu leyti verið samstarfsfús á meðan rannsókn hefur staðið yfir, en hann neitar sök í öllum helstu ákæruliðunum.

„Hann neitar sök í þessum stóru atriðum. Til dæmis þessum ásökunum um svokallaðar svefnnauðganir, hann hafnar því algjörlega,“ segir Petar Sekulic, einn lögmanna Maríusar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×