Erlent

Yfir­maður her­aflans er á móti her­námi og vill semja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Uppi er óeining milli stjórnvalda og hersins um framhaldið á Gasa. Zamir er hér fyrir miðju.
Uppi er óeining milli stjórnvalda og hersins um framhaldið á Gasa. Zamir er hér fyrir miðju. Getty/Ísraelsher

Eyal Zamir, yfirmaður herafla Ísraels, er sagður þrýsta á um það að stjórnvöld gangi að samningum við Hamas um lausn þeirra gísla sem enn eru í haldi á Gasa.

Haft er eftir Zamir að herinn hafi komið Ísrael í þá stöðu að samningur liggi á borðinu um lausn gíslana og nú sé það í höndum forsætisráðherrans Benjamin Netanyahu að klára málið.

Öryggisráð Ísrael mun funda á morgun um miðlunartillögu Egyptalands og Katar, sem gengur út á 60 daga vopnahlé og lausn helmings þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas. Netanyahu hefur hins vegar sagt að hann muni ekki samþykkja neitt samkomulag nema það kveði á um lausn allra gíslana.

Tuttugu eru enn taldir á lífi.

Ráðamenn í Ísrael hafa í hyggju að hernema Gasa-borg en samkvæmt ísraelskum miðlum er Zamir á móti þessum fyrirætlunum, þar sem þær ógna lífi gíslanna og gætu haft það í för með sér að langþreyttar hersveitir festist í átökum á svæðinu.

Þúsundir Ísraelsmanna hafa mótmælt hernámi Gasa-borgar og aðstandendur gíslanna segja Zamir endurspegla afstöðu flestra í Ísrael; að samið verði um lausn gíslanna og endir bundinn á stríðið.

Netanyahu er sagður vilja borgina hernumda fyrir 7. október en þá verða tvö ár liðin frá því að Hamas liðar réðust á byggðir Ísraelsmanna, myrtu um 1.200 manns og tóku 250 gísla.

Tæplega 62.700 manns eru sagðir hafa látist í árásum Ísraels á Gasa á þessum tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×