Erlent

Ungstirni ryður sér til rúms

Kjartan Kjartansson skrifar
Frumreikistjarnan WUSOUT 2b sést hér á mynd VLT-sjónaukans. Móðurstjarnan sjálf er hulin í miðju gas- og rykskífunnar sem er efniviðurinn í þetta nýja sólkerfi.
Frumreikistjarnan WUSOUT 2b sést hér á mynd VLT-sjónaukans. Móðurstjarnan sjálf er hulin í miðju gas- og rykskífunnar sem er efniviðurinn í þetta nýja sólkerfi. ESO/R. F. van Capelleveen et al.

Mynd sem VLT-sjónaukinn náði af reikistjörnu á frumstigum sínum er sú fyrsta sem sýnir slíka plánetu mynda belti í gas- og rykskífunni sem fóstraði hana. Uppgötvunin hjálpar stjörnufræðingum að skilja betur hvernig reikistjörnur verða til.

WISPIT 2b er gasrisi með um fimmfalt meiri massa en Júpíter, stærsta reikistjarna í sólkerfinu okkar. Hún er á braut um unga stjörnu af sömu gerð og sólin okkar. Á mynd VLT-sjónaukans sést hvernig reikistjarnan hefur rutt breitt belti í ryk- og gasskífu sem umlykur móðurstjörnuna.

Stjörnur og reikistjörnur verða til úr efnisskífum sem þessari. Þegar efnið í skífunum sem snúast utan um nýjar stjörnur safnast saman og þyngdarkrafturinn tekur við verða til eins konar snjóboltaáhrif þar sem frumreikistjarna sankar að sér efni og stækkar. Þá myndast belti í efnisskífunni eins og sést á myndinni þar sem frumreikistjarna hefur rutt sér til rúms.

Þetta er í fyrsta skipti sem mynd hefur náðst af frumreikistjörnu í efnisskífu með beltum af þessu tagi, að því er segir í grein á vef Evrópsku stjörnustöðvarinnar á suðurhveli (ESO).

Sjónaukinn, sem er staðsettur í Atacama-eyðimörkinni í Síle, greindi einnig vetnisgas sem féll í átt að reikistjörnunni sem sýnir að hún er enn að bæta við sig efni og stækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×