Erlent

Leið­togar fagna á­ætluninni en bíða svara frá Hamas

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump og Netanyahu voru vígreifir í Hvíta húsinu í gær. Boltinn er nú hjá Hamas og alþjóðasamfélagið bíður svara.
Trump og Netanyahu voru vígreifir í Hvíta húsinu í gær. Boltinn er nú hjá Hamas og alþjóðasamfélagið bíður svara. Getty/Win McNamee

Leiðtogar í Evrópu og Mið-Austurlöndum virðast almennt jákvæðir í garð 20 punkta áætlunar Bandaríkjanna um endalok átaka á Gasa. Aðrir vara við því að hún sé óraunhæf.

Ísraelar hafa þegar samþykkt áætlunina en beðið er viðbragða frá Hamas.

Guardian hefur eftir sérfræðingum og íbúum á Gasa að sú staðreynd að fulltrúar Hamas hafi ekki komið að útfærslu áætlunarinnar, og sú staðreynd að hún kveði á um að samtökin afsali sér öllum yfirráðum á svæðinu, vekji verulegar efasemdir um að áætlunin muni ganga upp.

„Það er augljóst að þessi áætlun er óraunhæf,“ sagði Ibrahim Joudeh, íbúi á Gasa, í samtali við AFP. „Hún inniheldur skilyrði sem Bandaríkin og Ísrael vita að Hamas mun aldrei sætta sig við. Fyrir okkur þýðir það áframhald stríðsins og þjáningarinna.“

Bæði Donald Trump Bandaríkjaforseti og Benjamin Netayhaju, forsætisráðherra Ísrael, hafa verið mjög skýrir varðandi það að um er að ræða úrslitakost fyrir Hamas. Gangi samtökin ekki að samkomulaginu muni Ísraelar ekki stoppa hernað sinn fyrr en samtökunum hefur verið útrýmt.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, hefur hvatt Hamas til að samþykkja áætlunina og Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir það eina valkost samtakanna í stöðunni. Ráðgjafar í ríkisstjórnum Barack Obama og Joe Biden hafa sömuleiðis lagt blessun sína yfir áætlunina og segja hana gætu virkað.

Heimastjórn Palestínumanna á Vesturbakkanum hefur sömuleiðis tekið vel í áætlunina en hún kveður meðal annars á um að alþjóðleg nefnd taki tímabundið yfir stjórn Gasa. Fyrst stóð til að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands færi fyrir nefndinni, en nú virðist Trump munu eiga að veita henni forystu.

Blair gæti þó mögulega orðið nokkurs konar framkvæmdastjóri nefndarinnar á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×