Erlent

„Hafið engar á­hyggjur af Kína, það verður allt í góðu lagi“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Trump stappar stálinu í Bandaríkjamenn.
Trump stappar stálinu í Bandaríkjamenn. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði tilraun til að stappa í Bandaríkjamenn stálinu andspænis yfirvofandi stigmögnun tollastríðs síns við Kína. Í gær hótaði hann hundrað prósent tollum á kínverskar og segir viðbrögð Xi Jinping forseta Kína stafa af því að hann hafi átt slæman dag.

Trump tilkynnti í fyrradag um stóreflisaukningu á tollum á vörur frá Kína. Hundrað prósenta tollur yrði lagður á allar kínverskar vörur og það ofan á þá tolla sem innflytjendur greiða kínverskum framleiðendum. Þetta var svar við tilkynningu stjórnvalda í Peking um að tálmar yrðu settir á útflutning sjaldgæfra málma. Kínverjar eru nánast í einokunarstöðu á markaði sjaldgæfra málma sem eru undirstaðan í allri raftækni nútímans.

Kínverjar hafa lofað því að svara í sömu mynt verði af tollahækkuninni. Talsmaður viðskiptaráðuneytis Kína sagði í dag að Kínverjar hafi engan áhuga á viðskiptastríði en að þeir muni ekki skorast undan því. Markaðurinn vestanhafs hafa brugðist illa við gagnkvæmum hótunum Kínverja og Bandaríkjamanna. Til að mynda lækkaði S&P-vísitalan um 2,7 prósent á fáeinum klukkustundum og verð rafmynta hrapaði.

Í færslu á samfélagsmiðlum virðist Trump opna á möguleikann á samkomulagi.

„Hafið engar áhyggjur af Kína, það verður allt í góðu lagi! Háttvirtur forseti Xi Jinping átti bara slæman dag. Hann langar ekki í kreppu í sínu landi og það vil ég ekki heldur. Bandaríkin vilja hjálpa Kína, ekki skaða það!“ sagði hann á samfélagsmiðli sínum fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×