Erlent

Skipar hernum að gera á­rásir á Gasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael. AP/Nathan Howard

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hefur skipað her ríkisins að gera „kröftugar“ árásir á Gasaströndina. Hann sakar Hamas-liða um að hafa brotið gegn vopnahléi á svæðinu. Vígamenn eru sagðir hafa skotið að ísraelskum hermönnum í dag og þar að auki saka Ísraelar Hamas um að brjóta gegn samkomulaginu hvað varðar að skila líkum gísla.

Utanríkisráðuneyti Ísrael sakaði Hamas fyrr í dag um að sviðsetja leit að líkum gísla í rústum húsa á Gasaströndinni. Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu sagði að meðfylgjandi drónamyndband sýndi Hamas-liða grafa líkamsleifar og þykjast grafa þær aftur upp, fyrir starfsmenn Rauða krossins.

Þá sagði Netanjahú fyrr í dag, samkvæmt Al Jazeera, að líkamsleifar sem Hamas hefði skilað síðustu nótt tilheyrðu látnum gísl. Ísraelskir hermenn hefðu frelsað lík hans fyrr á árinu. Þetta sagði ráðherrann klárt brot á vopnahléssamkomulagi.

Netanjahú sagðist þá ætla að kalla saman herforingja sína og ákveða næstu skref. Þau skref liggja nú fyrir, samkvæmt yfirlýsingu.

Enn eru lík þrettán gísla sem Hamasliðar fluttu til Gasastrandarinnar í höndum Hamas eða í rústum húsa á svæðinu.

Fyrsti liður vopnahléssamkomulagsins, sem kennt er við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, segir til um að Hamas eigi að skila líkunum. Síðan eiga þeir í kjölfarið að afvopnast og alþjóðlegt gæslulið verður sent til Gasastrandarinnar.

Leiðtogar Hamas hafa sagst eiga í vandræðum með að finna lík gísla vegna gífurlegrar eyðileggingar á Gasa.


Tengdar fréttir

Friður forsenda þess að erlent lið verði sent til Gasa

Abdullah konungur af Jórdaníu segir að friður sé forsenda þess að erlendur liðsafli verði sendur inn á Gasa. Jórdanía og Egyptaland hafa skuldbundið sig til að koma að því að þjálfa nýtt lögreglulið á Gasa.

„Ísrael mun missa allan stuðning“

Ráðamenn í Bandaríkjunum segjast ósáttir við ályktun ísraelska þingsins um innlimun Vesturbakkans. JD Vance, varaforseti, segir atkvæðagreiðsluna sem haldin var í morgun vera móðgandi og pólitískt glæfrabragð. Marco Rubio, utanríkisráðherra, segir ríkisstjórn Bandaríkjanna ekki geta stutt innlimun og að það myndi ógna friði við botni Miðjarðarhafs.

Óttast að senda hermenn til Gasa

Friðaráætlunin um Gasa, sem kennd er við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, felur í sér að senda alþjóðlegt friðargæslulið til Gasastrandarinnar. Ráðamenn víða um heim óttast þó að senda hermenn eða öryggissveitir á svæðið, þar sem þeir gætu lent í átökum við Hamas-liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×