Erlent

Kom til á­taka á mót­mælum vegna COP30

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Það kom til átaka á ráðstefnunni.
Það kom til átaka á ráðstefnunni. Epa

Fjöldi mótmælenda fóru inn á loftslagsráðstefnuna COP30 sem er nú haldin í Brasilíu. Það kom til átaka á milli mótmælendanna og öryggisvarða, sem læstu ráðstefnugesti inni á meðan átökin stóðu.

Hundruð mótmælenda af frumbyggjaættum samkvæmt Reuters fylktust að ráðstefnunni og mættu þar öryggisvörðum. Fjöldi þeirra komst inn í bygginguna en öryggisverðirnir reyndu að nota borð til að stöðva hópinn. Öryggisverðirnir virtust hissa á fjöldanum og óundirbúnir fyrir slíkt. Þeir áttu erfitt með að loka dyrunum.

Þúsundir fulltrúa frá löndum úti um allan heim koma nú saman á COP30, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þeirra á meðal eru fulltrúar frá Íslandi en ekki liggur fyrir hvort fulltrúar Íslands hafi verið viðstaddir mótmælin.

Sjónarvottur segir að til einhverra átaka kom og sást einn öryggisvörður yfirgefa vettvang í hjólastól og annar með sár á andliti eftir að kylfa hæfði hann í andlitið. 

Fjöldi kom saman fyrir utan ráðstefnuna.EPA

Mótmælendurnir yfirgáfu ráðstefnuna stuttu eftir að til átakanna kom. 

„Þau sem bera ábyrgð á loftslagsbreytingum og eyðileggingu regnskógarins, þau eru þarna inni og láta eins og þau séu að leysa vandann,“ segir Fred frá Juntas!-samtökunum í samtali við danska ríkisútvarpið

Agnete Finnemann Scheel, fréttaritari DR, er á vettvangi og segir ráðstefnugesti hafa verið læsta inni í húsinu á meðan mótmælin stóðu. Hún segir að um söguleg mótmæli sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×