Erlent

Úkraínskir út­sendarar Rússa sagðir að baki skemmdar­verkunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Pólskir sérsveitarmenn rannsaka önnur skemmdarverk sem voru unnin á lestarteinum á milli Varsjár og Deblin í gær.
Pólskir sérsveitarmenn rannsaka önnur skemmdarverk sem voru unnin á lestarteinum á milli Varsjár og Deblin í gær. Vísir/EPA

Forsætisráðherra Póllands segir að tveir Úkraínumenn sem starfa fyrir rússnesku leyniþjónustuna hafi framið skemmdarverk á lestarteinum um helgina. Annar þeirra hafi þegar hlotið dóm fyrir skemmdarverk í heimalandi sínu.

Sprengingin skemmdi lestarteina á milli Varjsár og Lublin við bæinn Mika, suðaustur af Varsjá, um helgina. Donald Tusk, forsætisráðherra, lýsti því yfir í gær að um fordæmalaus skemmdarverk væri að ræða.

Tusk sagði pólska þinginu í dag að útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar hefðu verið að verki. Annar þeirra hafi hlotið dóm að sér fjarstöddum fyrir skemmdarverk í Úkraínu, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Markmiðið var að valda lestarstórslysi,“ sagði forsætisráðherrann við þingheim og boðaði hærra viðbúnaðarstig í hluta lestarkerfins landsins vegna skemmdarverkahrinunnar.

Flúnir aftur til Belarús

Sökudólgarnir hefðu komið til Póllands frá Belarús í haust. Þeir hefðu þegar flúið land aftur til nágrannalandsins sem er náið bandalagsríki Rússlands. Annar mannanna væri búsettur þar en hinn í Austur-Úkraínu.

Spellvirkjarnir eru sagðir hafa notað C4-sprengiefni til þess að sprengja teinana á laugardagskvöld. Fyrri tilraun til þess að þvinga lest út af sporinu með stálklemmum á teinunum hefði farið út um þúfur.

Sprengingin náðist á upptöku eftirlitsmyndavélar en hún varð í þann mund sem flutningalest fór fram hjá. Hún sprengdi undirvagn hennar lítillega. Tusk sagði að stjórnandi lestarinnar hefði ekki tekið eftir sprengingunni.

Önnur skemmdarverk voru framin á teinum í gær sem neyddu stjórnanda farþegalestar með hátt í fimm hundruð manns um borð til þess að nauðhemla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×