Erlent

Dular­fullt bleikt slím veldur ugg á Tasmaníu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Yfirvöld eru uggandi yfir aukningu í þörungablóma.
Yfirvöld eru uggandi yfir aukningu í þörungablóma. NOFF

Yfirvöld á Tasmaníu hafa áhyggjur af dularfullu bleiku slími í fjöru á sunnanverðri eyjunni. Náttúrufræðingar óttast að um sé að ræða þörungablóma, en mengun og loftslagsbreytingar hafa ýtt undir blóma á fleiri stöðum við eyjuna síðustu ár.

Vegfarendur tóku eftir slíminu í gærmorgun samkvæmt grein The Guardian. Búið er að taka sýni af slíminu og er það nú til rannsóknar. Náttúrufræðingar óttast að slímið gæti haft áhrif á lífríkið við strendur eyjunnar. 

Þörungablómi er afar hröð fjölgun svifþörunga í sjó eða vatni. Svifþörungar eru almennt ekki skaðlegir fyrir annað lífríki en séu þeir of margir geta þeir haft slæm áhrif. Haldist kjöraðstæður fyrir fjölgun þeirra til lengri tíma munu þeir halda áfram að fjölga sér. 

Talið er að þörungarnir sem um ræðir gætu verið af tegundinni Noctiluca scintillans. Þeir framleiða ekki nein eiturefni eins og sumar tegundir en þeir eiga það til að éta hrogn og smáa hryggleysingja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×