Erlent

Þúsundir baula á banda­ríska sendi­herrann

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þúsundir eru saman komnar.
Þúsundir eru saman komnar. AP

Fjöldafundir til stuðnings Grænlandi fara nú fram víðs vegar um Danmörku. Mikill fjöldi fólks hefur komið saman á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn og sömuleiðis í Árósum, Óðinsvéum og Álaborg.

Mótmælendur í þúsundatali marséruðu á Ráðhústorgið með grænlenska fána og slagorð á skiltum. Grænlendingar voru áberandi þar í litríkum þjóðbúningum sínum. Á Ráðhústorginu flutti Sisse Marie Welling, borgarstjóri Kaupmannahafnar, ræðu.

„Make America Go Away“

Í kjölfarið fylktu mótmælendur liði að bandaríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn á Austurbrú þar sem þeir sungu: „Grænland er ekki til sölu.“ Áberandi eru einnig rauðar derhúfur margra mótmælenda sem eru prýddar slagorðinu: „Make America Go Away.“

„Í dag sýnum við að við stöndum saman. Á Grænlandi, í samveldinu, á Norðurlöndum og í Evrópu. Við stöndum saman og víkjum ekki. Því að okkar samstaða er sterkari en græðgi þeirra,“ sagði einn skipuleggjenda mótmælanna í ræðustól fyrir utan bandaríska sendiráðið.

Klippa: Þúsundir mótmæla í Kaupmannahöfn

„Takið krumlurnar af Grænlandi! Eigum við ekki að reyna að öskra svo hátt að þeir heyri það alla leið í Hvíta húsið?“ spurði hann svo.

Fjöldafundur verður einnig haldinn í Nuuk, höfuðborg Grænlands, og víða um Grænland seinna í dag.

Það skipti máli „sálfræðilega“ að eignast landið

Stephen Miller, einn nánasti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta lét hafa það eftir sér í viðtali í gærkvöldi að Danmörk væri „pínulítið land með pínulítinn efnahag og pínulítinn her. Hann sagði Danmörku ekki geta varið Grænland og að Bandaríkjamenn þyrftu að hafa stjórn á norðurslóðum.

Í nýlegu viðtali var Donald Trump sömuleiðis bent á þá staðreynd að Bandaríkjamenn hafi rúmar heimildir til að auka viðveru sína á Grænlandi. Hann var inntur eftir því hvers vegna það skipti þá yfirhöfuð máli að Bandaríkin þyrftu að eignast landið.

„Af því að það finnst mér þurfa sálfræðilega til að ná árangri. Ég held að eignarhald gefi þér hluti sem leiga eða samningur gerir ekki. Eignarhald gefur þér hluti sem þú getur ekki fengið með því að skrifa eingöngu undir skjal,“ sagði hann þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×