Samræmd próf voru tekin upp um miðja tuttugustu öld til þess að vinna gegn stéttaskiptingu. Landsprófið jafnaði leikinn, allir tóku sama próf á sama tíma í sínum heimaskóla. Val á nemendum inn í framhaldsskóla var á grunni fyrri námsárangurs. Þetta val tengdist vissulega þjóðfélagsstöðu nemenda en eftir sem áður var það fyrri námsárangur sem réði námsframvindunni. Landsprófið sendi skilaboð til unglinga um allt land, til sjávar og sveita, skilaboð um framtíðarmöguleika í námi, að þau gætu lært og verið jafnokar annarra í skólum landsins. Þjóðfélagsstaðan, efnaleysi og freistingin að afla tekna réðu þó vafalaust úrslitum hjá mörgum um hvað síðan varð. Þess vegna var lánasjóður námsmanna settur á fót.