Skoðun

Ég hef áhyggjur

Björn Dagbjartsson skrifar
Fyrir langa löngu lærði ég hrafl úr kvæðinu „Vikivaki" eftir Guðmund Kamban. Í því er meðal annars þetta vísubrot:

„Gegn svo mörgu sem

Guð þeim sendir

menn gera kvíðann að hlíf

kvíða oft því sem aldrei hendir

og enda í kvíða sitt líf."

Ég hef oft haft þetta yfir með sjálfum mér þegar ég hef verið áhyggjufullur út af einhverju. En stundum er eins og maður geti ekki varist því að hafa áhyggjur og ég hef áhyggjur út af ýmsu núna.

- Ég hef áhyggjur af því að Icesave-frumvarpið kunni að vera fellt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl vegna lítillar kosningaþátttöku.

- Ég hef áhyggjur af þeim lögfræðingasjónleik sem þá fer í gang með tilheyrandi töfrabrögðum.

- Ég hef áhyggjur af því að þá munum við Íslendingar halda áfram að vera úti í kuldanum á fjármálamörkuðum heimsins þar sem enginn trúir því að við stöndum við skuldbindingar okkar.

- Ég hef áhyggjur af því að þá muni fjölskyldur og vinahópar halda áfram að vera klofnir út af illvígum deilum um þetta ömurlega mál.

- Ég hef áhyggjur af því að ritstjórinn sem skrifaði í Morgunblaðið þegar svokölluðum fjölmiðlalögum var vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu er nú einn ötulasti talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna.

- Ég hef áhyggjur af því þegar harðvítugustu andstæðingar forystu Sjálfstæðisflokksins eru þeir sem skrifa Morgunblaðið.

- Ég hef áhyggjur af því þegar menn sem ég hef talið sæmilega skynsama kalla það að „standa í lappirnar" að kasta sér út í margra ára dómstólaþras með ófyrirsjánalegum afleiðingum.

Innst inni veit ég að enginn getur aukið alin við hæð sína með áhyggjum. Ég á að trúa því að fólk mæti á kjörstað þann 9. apríl. Þó að ekki séu allir hrifnir af því að losa okkur við þetta nöturlega mál á þennan hátt þá er ég sannfærður um að mikill neirihluti manna vill vera laus við þá skelfilega innihaldslausu og oft á tíðum illskeyttu „Já—Nei" umræðu um þetta mál sem hér hefur riðið húsum undanfarin ár.




Skoðun

Sjá meira


×