Skoðun

Skyldan til þess að bjarga lífi – Opið bréf til ríkissaksóknara

Kári Stefánsson skrifar
Hæstvirtur ríkissaksóknari, Sigríður Friðjónsdóttir.

Starfshópur sem heilbrigðismálaráðherra skipaði árið 2016 til þess að setja saman tillögur um nýtingu erfðaupplýsinga til forvarna skilaði af sér á mánudaginn. Í tillögum starfshópsins kemur fram að hann geri sér grein fyrir því að þeir sem beri íslensku stökkbreytinguna í BRCA2 séu í lífshættu. Starfshópurinn tjáir síðan þá skoðun sína að það bryti í bága við lög að vara arfberana við hættunni sem væri fyrsta skrefið til þess að koma þeim til hjálpar. Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að benda þér á 221. gr almennra hegningarlaga sem er svona:

„Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem er staddur í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Starfshópurinn hefur ekkert gert til þess að bjarga arfberunum úr lífshættunni þótt það séu til aðferðir sem duga í flestum tilfellum og reynir að sannfæra aðra um að það væri brot á lögum ef þeir gerðu það. Þetta er klárlega margfalt brot á 221. greininni vegna þess að fjöldi manns er nú staddur í lífsháska vegna stökkbreytingarinnar.

Með þessu bréfi fer ég formlega fram á að þú skoðir þann möguleika að starfshópurinn hafi gerst sekur um refsivert athæfi.

Með þökk,

Kári Stefánsson

Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×