Erlent

Kim og Moon funda í Pyongyang í september

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jea-in, forsætisráðherra Suður-Kóreu, munu hittast í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu í næsta mánuði.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jea-in, forsætisráðherra Suður-Kóreu, munu hittast í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu í næsta mánuði. Vísir/AP
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jea-in, forsætisráðherra Suður-Kóreu, munu hittast í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í næsta mánuði. Þetta verður þriðji fundur leiðtoganna og í fyrsta sinn í rúman áratug sem slíkur fundur er haldinn í Pyongyang.

Moon og Kim hafa hist tvisvar sinnum áður, í apríl og í maí, og þá hitti Kim forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í Singapúr í júní. Á þeim fundi skrifuðu Kim og Trump undir samkomulag varðandi kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans. Síðan þá hafa Bandaríkin sakað Norður-Kóreu um að draga fæturna og Norður-Kórea hefur skammast út í Bandaríkin yfir því að viðskiptaþvinganir hafi ekki verið felldar niður.

Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur verið sökuð um að halda kjarnorkuvopna- og eldflaugaframleiðslu áfram, í trássi við samkomulagið í Singapúr.

Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni komu embættismenn Norður- og Suður-Kóreu saman í dag og ræddu þeir meðal annars samvinnuverkefni ríkjanna sem hefðu verið sett í gang í kjölfar síðasta fundar Moon og Kim.



Miðað við yfirlýsingar sendinefndanna eru ríkin þó ekki sammála um hvenær halda eigi leiðtogafundinn. Ri Son Gwon, frá Norður-Kóreu, sagði blaðamönnum að búið væri að ákveða tiltekinn dag en hann vildi ekki segja hvaða dag. Cho Myoung-gyon, sameiningarráðherra Suður-Kóreu, sagði hins vegar að það væri ekki búið að velja dag.



Meðal þess sem Moon og Kim munu ræða þegar og ef þeir hittast í september er hvort þeir geti bundið enda á Kóreustríðið með formlegum hætti. Það hefur í rauninni staðið yfir frá 1950 þar sem samið var um vopnahlé árið 1953 en ekki frið. Norður-Kórea hefur kallað eftir því að friði verði lýst yfir sem fyrst. Bandaríkin vilja hins vegar að ríkisstjórn Norður-Kóreu sýni fram á að hún hafi gripið til markvissra aðgerða varðandi kjarnorkuafvopnun.

 


Tengdar fréttir

Bandaríkin beita refsiaðgerðum gegn rússneskum banka

Yfirvöld Bandaríkjanna hafa beitt refsiaðgerðum gegn rússneskum banka fyrir að hafa átt í viðskiptum við aðila frá Norður-Kóreu sem var á svörtum lista vegna kjarnorkuvopnaáætlunar ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×