Inga heygir nú harða baráttu á Alþingi gegn þungunarrofsfrumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Í gærkvöldi sendi hún hópsendingu á íslenska fjölmiðla með myndum af íslenskri stúlku sem fæddist á 23. viku meðgöngu.
Verði frumvarp Svandísar samþykkt, sem allt bendir til samkvæmt atkvæðagreiðslum hingað til, verður konum heimilt að fara í þungunarrof fram að lokum 22. viku meðgöngu. Núgildandi lög kveða á um að slíkar aðgerðir skuli aldrei framkvæmdar síðar en eftir þá sextándu, nema fyrir liggi ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður.
Erfitt þegar hlutirnir eru teknir svona úr samhengi
Sigurlaug Benediktsdóttir fæðinga- og kvensjúkdómalæknir á Landspítalanum skrifaði opið bréf til Ingu Sæland vegna málflutnings hennar í tengslum við frumvarpið í fyrra. Í greininni, sem birtist á Vísi í nóvember og vakti mikla athygli, lýsir Sigurlaug aðstæðum þeirra kvenna sem óska eftir þungunarrofi eftir sextándu viku, og nýja frumvarpið mun einkum heyra til.Sigurlaug segir í samtali við fréttastofu í dag að nýjasta útspil Ingu sé ósmekklegt og ekki eiga heima í umræðu um þungunarrofsfrumvarpið.
„Það er bara mjög erfitt fyrir okkur þegar hlutirnir eru teknir svona úr samhengi. Það er ekki verið að tala um að leyfa fóstureyðingar eftir viku 22+0. En það eru vissulega dæmi um það að börn sem fæðist eftir viku 23 lifi af. Þannig að þetta er bara tvennt ólíkt og þetta er bara ósmekklegt hjá henni.“

20 vikur stór afturför og veruleg skerðing
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram breytingartillögu um að þungunarrofsmörkin yrðu lækkuð úr 22 vikum í 20. Sigurlaug segir þá tillögu stóra afturför og „verulega skerðingu“ á réttindum verðandi foreldra.„Stærstur hluti fólks velur að þiggja fósturgreiningu sem er núna gerð í kringum 19.-20. viku og ef þeim ætti að standa áfram til boða að koma í fósturgreiningu þá yrðum við að færa það niður í viku 17, 18.“
Þessum greiningum þyrfti þannig að flýta til að gefa sérfræðingum tíma til rannsókna og foreldrum tíma til að taka afstöðu til þess hvort halda eigi meðgöngunni áfram eða rjúfa hana.
„Þá erum við að gera miklu lakari rannsóknir með minna næmi og verra öryggi. Þannig að mér finnst þetta ótrúlega illa ígrundað.“
Þá svarar Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins útspili Ingu í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Bryndís segir þar að Inga gangi langt í að persónugera umræðu um þungunarrofsfrumvarpið.
Frumvarpið fjalli hins vegar ekki um kraftaverk sem unnin eru á vökudeild. Sjálf treysti Bryndís sér ekki til að taka ákvörðun um þungunarrof fyrir nokkurn mann.
Vill aðrar forsendur
Inga Sæland vonast til þess að myndirnar sem hún sendi af stúlkunni verði til þess að frumvarpið verði nálgast á öðrum forsendum en fylgismenn þess hafa haft frammi.„Ég vonast til þess að þetta frumvarp verði ekki sett í atkvæðagreiðslu á mánudaginn. Ég vonast til þess að við fáum tíma til að undirbúa þessa hluti á allt öðrum forsendum heldur en nú er lagt fram með. Mér finnst þetta alltof harkalegt og ótrúleg tímalengd á þessari heimild til fóstureyðinganna.“