Erlent

Bretaprins höfðar mál gegn the Sun

Andri Eysteinsson skrifar
Hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan.
Hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan. Getty/Samir Hussein

Hertoginn af Sussex, Harry Bretaprins, hefur fetað í fótspor eiginkonu sinnar, Meghan Markle, og hefur höfðað mál gegn eigendum fjölmiðlanna the Sun, the Daily Mirror og blaðinu News of the World, sem lagði upp laupana 2011, vegna meintra innbrota í síma prinsins.



Áður hafði Hertogaynjan lögsótt Mail on Sunday fyrir að hafa birt með ólögmætum hætti bréf frá henni stílað á föður sinn, Thomas Markle. Miðlarnir þrír sem prinsinn hefur lögsótt eru eða voru allir gefnir út af sama útgefanda, NGN.



Í samtali við BBC staðfestir útgefandinn að þeim hafi borist ákæra í málinu. Upp komst um brot blaðanna árið 2007 en 2011 var höfðað stórt mál gegn News of the World sem leiddi til þess að blaðið var lagt niður.



Brot blaðsins var á þann veg að blaðamenn brutust inn í símsvara fræga fólksins og unnu upp úr símtölum fréttir.



Í réttarhöldunum 2011 kom fram að Harry Bretaprins hafi verið eitt fórnarlambanna auk Vilhjálms Bretaprins og Katrínar eiginkonu hans, hertogaynjunni af Cambridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×