Hafnarfjörður, sem hefur hlutfallslega flesta NPA-samninga, ákvað nýlega að stofna starfshóp en lét upphæðina fylgja launavísitölu en ekki kjarasamningum, 4.117 króna tímagjald. „Upphæðin er allt of lág og dugar engan veginn til að greiða aðstoðarfólki kjarasamningsbundin laun og réttindi, og þannig er þetta víðs vegar,“ segir Rúnar. „Við höfum sent helstu sveitarfélögum landsins útreikninga samkvæmt lágmarki kjarasamninga og nokkur hafa tekið þá upp, svo sem Reykjavík og Ísafjörður.“ Samræming launataxta hefur gengið mjög illa og skapar það ójöfn búsetuskilyrði fyrir fatlað fólk. Sveitarfélögin greiða 75 prósent af kostnaði samninga og ríkið 25 prósent. Fjármálaráðuneytið hefur ekki gefið út viðmið taxta eins og sveitarfélögin vilja. Rúnar segir að taxtamunurinn hafi verið allt að 10 prósent á síðasta ári. „Fatlað fólk myndi ábyggilega flytja ef það gæti en húsnæðismarkaðurinn er erfiður, sérstaklega fyrir fatlaða þar sem húsnæði með aðgengi er aðeins hluti af markaðinum,“ segir hann.

Samkvæmt lögunum skulu sveitarfélögin hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks varðandi skipulag en aðeins tvö hafa gert það, Reykjavík og Reykjanesbær. Samráð við fatlaða varðandi NPA-námskeið fyrir fatlað fólk, aðstoðarfólk og umsýsluaðila hefur einnig verið í skötulíki. Samkvæmt lögum á ráðherra að skipa samráðsnefnd ráðherra til ráðgjafar og fatlaðir að vera þar í meirihluta. „Ekkert hefur heyrst af skipun þessarar nefndar og nú er komið ár síðan lögin voru samþykkt,“ segir Rúnar. „Samt er verið að funda um þessi lög, milli sveitarfélaganna og ráðuneytisins.“
Eitt helsta deilumálið varðandi NPA er það hvort löggjöfin nái til barna eða ekki. Samband íslenskra sveitarfélaga telur svo ekki vera en velferðarnefnd Alþingis telur að sveitarfélögunum sé það í sjálfsvald sett að gera NPA-samninga fyrir börn.
„Ég tók þátt í að semja þessi lög og það hefur allan tímann verið mjög skýrt að þau nái til barna. Hvergi er tekið fram að svo sé ekki,“ segir Rúnar.