Erlent

Kínverskur fangi tekinn af lífi í Japan

Sylvía Hall skrifar
Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans, greindi frá aftökunni á blaðamannafundi í dag.
Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans, greindi frá aftökunni á blaðamannafundi í dag. Vísir/getty

Wei Wei, fertugur kínverskur maður sem myrti fjölskyldu í borginni Fukuoka árið 2003, hefur verið tekinn af lífi. Tíu ár eru liðin frá því að erlendur fangi var síðast tekinn af lífi í Japan.

Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans, sagðist hafa samþykkt aftökuna eftir vandlega íhugun. Um væri að ræða sérstaklega hrottalegt og grimmt mál.

Wei Wei hafði ætlað að ræna viðskiptamanninn Shinjiro Matsumoto og braust inn á heimili hans ásamt tveimur öðrum. Matsumoto var kyrktur og konunni hans drekkt í baði. Tvö börn þeirra, ellefu og átta ára gömul, voru einnig á heimilinu og voru þau kæfð til dauða.

Mennirnir tveir flúðu til Kína þar sem annar þeirra var tekinn af lífi árið 2005 en hinn dæmdur í lífstíðarfangelsi. Wei Wei varð eftir í Japan og játaði á sig morðin en sagðist ekki hafa verið forsprakki hópsins.

Farið var að birta nöfn þeirra sem teknir eru af lífi í Japan árið 2007. Síðan þá hefur aðeins einn erlendur fangi verið tekinn af lífi samkvæmt opinberum upplýsingum og var það kínverskur maður sem var hengdur árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×