Erlent

Fjöru­tíu smitaðir til við­bótar um borð í Prinsessunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
BBC greinir frá því að farþegar hafi lýst yfir áhyggjum af lyfjaskorti í skipinu.
BBC greinir frá því að farþegar hafi lýst yfir áhyggjum af lyfjaskorti í skipinu. Vísir/EPA

Alls eru nú 636 látnir af völdum Wuhan-kórónaveirunnar og staðfest tilfelli eru orðin rúmlega 31 þúsund, að því er fram kemur í nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína. Þá hefur nú verið staðfest 41 nýtt smit um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess og fjöldi smitaðra alls orðinn 61.

Um 3.700 manns eru um borð í skipinu, sem verið hefur í einangrun í japönsku borginni Yokohama síðan fyrr í vikunni eftir að áttræður karlmaður frá Hong Hong veiktist af veirunni. Hann kom um borð í skipið 20. janúar og fór frá borði fimm dögum síðar.

Staðfest tilfelli veirunnar í Japan eru nú orðin 86. Hvergi hafa fleiri smit greinst í einu landi utan Kína til þessa.

Þeir sem smitast hafa af veirunni í skipinu eru sendir á sjúkrahús en aðrir þurfa að dvelja um borð þangað til 19. febrúar. Hinir smituðu eru frá tíu löndum; flestir þó frá Japan, Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada.

BBC greinir frá því að farþegar hafi lýst yfir áhyggjum af lyfjaskorti í skipinu. Þannig hafi einn úr hópnum veifað fána sem gaf slíkt til kynna.

Þá ræðir BBC við breskan farþega sem er um borð í skipinu. Hann lýsir því að farþegum sé gert að mæla líkamshita sinn með reglulegu millibili og láta heilbrigðisstarfsmenn um borð vita af öllum frávikum. Þá þurfi þeir að þvo föt sín og þrífa káetur sínar sjálfir.

Annað skemmtiferðaskip að nafni World Dream, með um 3600 manns innanborðs, sætir einnig einangrun í Hong Kong. Enginn hefur enn greinst með veiruna um borð en átta fyrrverandi farþegar eru smitaðir. Þeir greindust allir með veiruna utan skipsins.


Tengdar fréttir

Smitaðir um borð orðnir tuttugu

Yfir 560 eru nú látnir af völdum Wuhan-kórónaveirunnar og um 27 þúsund tilfelli veirunnar hafa verið staðfest, samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×