Aðgerðir Tyrkja og Asera í deilunni við Armena um héraðið Nagorno-Karabakh eru hryðjuverk og framhald á þjóðarmorði Tyrkja á Armenum. Þetta segir armenski forsætisráðherrann Nikol Pashinyan í samtali við Sky News.
„Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að þetta er pólitík sem gengur út á að halda áfram þjóðarmorðinu á Armenum og að endurvekja tyrkneska heimsveldið,“ sagði Pashinyan og vísar þar í þegar Tyrkir drápu um 1,5 milljónir manna í fyrri heimsstyrjöldinni.
Umræður um þjóðarmorðið er mjög viðkvæmt í Tyrklandi, en stjórnvöld þar í landi hafna því að um kerfisbundin morð hafi verið að ræða, heldur hafi Armenarnir látið lífið í átökum tyrkneskra og armenskra hersveita.
Síðustu daga hafa mikil átök staðið milli Armena og Asera, sem njóta stuðnings Tyrkja, og hafa vel á þriðja hundrað fallið.
Deilurnar snúa að héraðinu Nagorno-Karabakh sem er að finna innan landamæra Aserbaídsjan, en þar eru Armenar í miklum meirihluta og ráða þar ríkjum. Deilur hafa staðið um héraðið allt frá níunda áratugnum.