Ma Xiaoguang, sem er talsmaður skrifstofu ríkisráðs Kína um málefni Taívans, sagði á fundi í morgun að ráðamenn í Kína vildu friðsama lausn á deilu ríkjanna en ekki sé ásættanlegt að Taívanar stígi yfir „rauðar línur“ Kínverja.
„Ef sjálfstæðissinnar í Taívan ögra, beita valdi eða stíga yfir einhvers konar rauðar línur, munum við þurfa að grípa til harkalegra aðgerða,” sagði Ma, samkvæmt frétt Reuters.
Þá sagði hann að spennan yfir Taívan-sundi myndi líklega aukast á næsta ári.
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.
Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína.
Sjá einnig: Heitir því að Taívan verði sameinað Kína á ný
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Undanfarna mánuði hafa Kínverjar beitt Taívan, og bandamenn eyríkisins, auknum þrýstingi. Þá virðist sem Kínverjar hafi sett mikið púður í njósnir í Taívan á undanförnum árum.