Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar mun líða lengri tími en óttast var þar til verðbólgan kemst aftur nær verðbólgumarkmiðunum; ásættanleg verðbólga er um 2,5%. Á þessu ári er verðbólgan um 7,5%, á því næsta 4,9%, árið 2024 verður hún um 3,3% en fyrst árið 2025 eru bundnar vonir við að hún nálgist verðbólgumarkmiðið.

Það eru ekki pítsur sem eru að drífa verðbólguna áfram hér á landi, heldur einkum húsnæði sem hækkar sögulega mikið í hverjum mánuði. Á ársgrundvelli hefur verðið verið að hækka um allt að 20% á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er alveg ljóst að við erum fyrir löngu búin að missa stjórn á húsnæðismarkaðnum,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við fréttastofu.

Án húsnæðisliðarins væri verðbólgan ekki í 7,5% heldur 5,5%.
„Það sem við getum stýrt hérna á Íslandi er húsnæðismarkaðurinn. Við lendum alltaf þar. Hann er að valda okkur þvílíkum vandræðum og það hefur legið fyrir árum saman,“ segir Drífa.
Drífa segir að vandamálið sé of lítið framboð en of mikil eftirspurn er líka talin vandamál. Seðlabankinn reynir nú að stemma stigu við hækkunum á markaðnum með því að gera ríkari kröfur um eigið fé til fyrstu kaupenda, þeir þurfa nú 15% innborgun. Sem seðlabankastjóri hefur sagt að geti þýtt að fleiri þurfi áfram að dvelja í foreldrahúsum - eða á leigumarkaði.
„Okkur finnst mjög slæmt þegar það er verið að þrengja að nýjum kaupendum að komast út á fasteignamarkað. Nógu erfitt var það nú fyrir með hækkandi húsnæðisverði. Við þurfum að byggja, þannig að fólk þurfi ekki að fresta lífinu og geti farið að skipuleggja líf sitt sem fullorðnar manneskjur,“ segir Drífa.