Hitinn í Tókýó náði 35,1°C fyrir klukkan 13:00 að staðartíma í dag. Þetta er fjórði dagurinn í röð sem hitinn fer yfir 35 gráður. Það gerðist síðast í júnímánuði árið 1875. Viðvörun var gefin út vegna hættu á hitaslagi víða um Japan í dag og í Tókýó voru 76 fluttir á sjúkrahús.
Ekkert lát virðist ætla að verða á hitanum í bráð. Japanska veðurstofan spáir því að hitinn nái 36 gráðum í höfuðborginni á fimmtudag og 35 gráðum á föstudag.
Yfirvöld hafa biðlað til almennings að draga úr rafmagnsnotkun til að forðast rafmagnsleysi. Sparnaðurinn ætti þó að vera innan skynsamlegra marka. Koichi Hagiuda, viðskipta- og iðnaðarráðherra, segir dæmi um að eldra fólk hafi slökkt á loftkælingu eftir að almenningur var beðinn um að spara við sig.
„Geriði það, það er heitt, ekki hika við að kæla ykkur,“ sagði ráðherrann.
Erfiðlega hefur einnig gengið að sannfæra allan almenning um að skilja sóttvarnagrímur eftir heima til að draga úr líkum á að hitinn beri fólk ofurliði.