Kínverjar héldu langar og umfangsmiklar heræfingar undan ströndum Taívans í kjölfar heimsóknar Pelosi. Þó heræfingunum hafi formlega lokið fyrr í vikunni, hefur kínverskum orrustuþotum daglega verið flogið inn í loftvarnarsvæði Taívans.
Herskip hafa einnig greinst í kringum eyjuna í morgun, samkvæmt varnarmálaráðuneyti Taívans.
Sjá einnig: Kínverjar hættir í bili en áskilja sér rétt til hernaðaraðgerða
Þingmennirnir sem eru nú í Taívan tilheyra bæði Demókrata- og Repúblikanaflokknum og er hópurinn leiddur af öldungadeildarþingmanninum Ed Markey, sem er Demókrati, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Aðrir í hópnum eru Aumua Amata Coleman Radewagen, fulltrúadeildarþingmaður Repúlbikanaflokksins frá amerísku Samóa, John Garamendi og Alan Lowenthal, sem báðir eru fulltrúadeildarþingmenn Demókrataflokksins frá Kaliforníu, og Don Beyer, demókrati frá Virginíu.
Hópurinn mun meðal annars hitta Tsai Ing-wen, forseti Taívans, og halda ferðalagi þeirra um Asía áfram á morgun.
Auknar áhyggjur af innrás
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.
Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði. Ráðamenn í Kína eru mótfallnir því að Taívanar eigi í opinberum samskiptum við önnur ríki.
Áhyggjur af mögulegri innrás Kínverja í Taívan hafa aukist á undanförnum árum.
Sjá einnig: Útsendarar Kína í innsta hring herafla Taívans og meðal lífvarða forsetans
Taívan hefur staðið frammi fyrir mögulegri innrás frá Kína í áratugi. Undanfarin ár hafa þó orðið mikilvægar breytingar sitthvoru megin við Taívansund.
Samhliða því að sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan, hefur geta herafla ríkisins dregist saman. Um þrjár milljónir manna eru í varalið herafla Taívans en meirihluti þeirra segist litla sem enga þjálfun hafa fengið.

Kínverjar hafa beitt Taívan sífellt meiri þrýstingi á undanförnum árum og hafa verið sakaðir um að reyna að draga máttinn úr verjendum eyjunnar með óhefðbundnum hernaði. Málefni eyríkisins á stóran þátt í versnandi samskiptum Bandaríkjanna og Kína á undanförnum árum.
Sjá einnig: Beita óhefðbundnum hernaði gegn Taívan
Ráðamenn í Kína saka Bandaríkjamenn um að reyna að ýta undir sjálfstæði í Taívan. Bæði með því að eiga í samskiptum við eyríkið og með því að selja Taívönum vopn. Ráðamenn í Bandaríkjunum segjast ekki styðja það að Taívan lýsi formlega yfir sjálfstæði og að deilur ríkjanna eigi að leysa með friðsömum hætti.
Bandaríkjamenn ætla að senda herskip og orrustuþotur í gegnum Taívan-sund á komandi vikum.