Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu síðasta árs nam 7,8 prósentum. Þá voru 8,3 prósent heildar vinnustunda unnar í ferðaþjónustunni, sem í báðum tilfellum er það hæsta frá 2018. Samkvæmt upplýsingum frá Play og Icelandair er útlit fyrir mikinn ferðamannastraumi hingað til lands í sumar. Samtök ferðaþjónustunnar segja útlit fyrir að 2023 muni toppa metárið 2018. Samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum var ferðaþjónusta rúmur fjórðungur alls útflutnings vara og þjónustu á síðasta ári, en árið áður var hlutfallið sextán prósent.

Formaður Landverndar telur nausynlegt að bregðast við þessum fjölda ferðamanna.
„Það eru innviðir sem þarf að styrkja varðandi göngustíga og annað. Svo held ég að landvarsla geti spilað þarna stórt hlutverk. Landverðir bæði gæta öryggis ferðamannanna en hafa það meginmarkið að vernda náttúruna,“ segir Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar.
Taka þurfi upp ástandsskoðanir á fleiri svæðum en þeim sem friðlýst eru, en Umhverfisstofa framkvæmir slíkar skoðanir.
Hver er upplifun ferðamanna?
Þorgerður segir að markmið ferðaþjónustunnar eigi ekki endilega að vera að fá sem flesta ferðamenn til landsins.
„Svo þurfum við líka að spyrja okkur að því hvaða upplifun fólk er að leita að þegar það kemur hingað. Það kemur kannski ekki hingað til þess að ganga í halarófu á Laugaveginum. Hvers konar upplifun er það að leita að og erum við að skerða hana með því að fá of marga?“ spyr Þorgerður.
Heldurðu að þessi sjónarmið ykkar hjá Landvernd og svo þeirra sem reyna að vinna að því að fá sem flesta ferðamenn hingað og fá sem mest út úr þeim, séu algjörlega ósamrýmanleg?
„Alls ekki. Ég held að við séum sammála í grunninn um hvað við viljum sjá. Auðvitað eru ferðamenn af hinu góða. En þetta er bara spurning um að hafa einhverja stefnu í þessu.“