Hópur leiðtoga arabaríkja, vestrænna ríkja og samtaka komu saman til skyndifundar í boði Frakklandsforseta í París í dag til að ræða stöðuna í átökunum á Gaza. Mohammad Shtayyeh forsætisráðherra Palestínu spurði ráðstefnugesti hvenær þeir teldu að nóg væri komið af morðum og eyðileggingu heimila fólks

„Hvað þurfa margir Palestínumenn að deyja til að stöðva stríðið? Þegar sex börn eru myrt á hverri klukkustund, þegar kona er myrt á klukkustundarfresti, er það nóg? Eða þegar tíu þúsund manns hafa verið drepin á þrjátíu dögum, dugar það til,“ spurði forsætisráðherrann.
Sjálfsvörn gæfi ríkjum ekki rétt til að hernema önnur lönd, til að brjóta alþjóðleg mannúðarlög og hvorugur aðilinn hefði rétt til að myrða saklausa borgara.
„En Ísrael er ekki í stríði við Hamas heldur alla palestínsku þjóðina. Varnarmálaráðherra Ísraels hefur sagt að hann eigi í stríði við mannskepnur,“ sagði Shtayyeh.
Tveggja ríkja lausn er eina leiðin sem tryggir frið og öryggi
Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði tveggja ríkja lausn sjálfstæðrar Palestínu og Ísraels þjóna öryggishagsmunum beggja aðila.

„Við verðum að læra af reynslunni og hætta að fresta friði í Miðausturlöndum. Við verðum að ná aftur frumkvæðinu og safna styrk til að færa okkur loksins í átt til tveggja ríkja lausnarinnar, þar sem Ísrael og Palestína geta þrifist hlið við hlið í friði og öryggi,“ sagði Macron á ráðstefnunni í París.
En á meðan leiðtogar heimsins tala heldur stríðið áfram. Ísraelsher er kominn inn í miðborg Gazaborgar. Börn og fullorðnir halda áfram að deyja og innviðir eru sprengdir í loft upp með tilheyrandi skorti á mat, lyfjum, vatni og rafmagni.

Á Alþingi Íslendinga náðist loks að samþykkja í dag ályktun með öllum greiddum atkvæðum, sem allir flokkar stóðu að, um vopnahlé og fordæmingu á árásum á almenna borgara og brot á alþjóðalögum.

„Umræða dagsins í dag hefur sýnt svo ekki verður um villst að enginn í þessum sal er ósnortinn af þeim skelfilegu atburðum sem nú eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að Alþingi geti hafið sig yfir pólitískt þjark hversdagsins og talað með skýrri röddu í atburðum þar sem fórnarlömbin eru fyrst og fremst venjulegt fólk, óbreyttir borgarar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar ályktunin var samþykkt í dag.