Einn stærsti stjórnarandstöðuflokkur Taívans, sem kallast KMT, hefur til að mynda lengi staðið fyrir nánara stjórnmála- og viðskiptasambandi við meginlandið. það hefur þó breyst töluvert. Í viðtali við Wall Street Journal segir Hou Yu-ih, forsetaframbjóðandi KMT, að hann hafi aldrei haft óraunhæfa afstöðu varðandi viðhorf ráðamanna í Peking til Taívans.
„Það mikilvægasta er að byggja upp varnir okkar og hagkerfi svo hin hliðin geti ekki hafið stríð eins og ekkert sé,“ sagði Hou. Hann, og aðrir frambjóðendur, segja almenning í Taívan vanmeta líkur á stríði við Kína á næstu árum.

Meðal þess sem haft hefur áhrif á viðhorf Taívana til Kína er hvernig Kommúnistaflokkur Kína braut lýðræðið í Hong Kong á bak aftur og tók á mótmælendum af mikilli hörku. Samkvæmt frétt WSJ hafa Taívanar lítinn áhuga á nokkurs konar samkomulagi um að veita Kína pólitíska stjórn yfir eyjunni í skiptum fyrir sjálfstjórn, eins og gert var upprunalega varðandi Hong Kong.
Sjá einnig: Íbúum Hong Kong bannað að minnast blóðbaðsins 1989 þriðja árið í röð
Miðillinn segir að í dag séu einungis þrjú prósent Tíavana sem segist vera Kínverjar.
Heita því að ná tökum á Taívan
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinnar til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Í stjórnarskrá Taívans má einnig finna ákvæði um að Taívanir séu réttmætir stjórnendur mestalls Kína.
Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina ríkin og með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi Jinping, forseti Kína. Hann er sagður hafa gert það að markmiði sínu að ná völdum á Taívan og hefur hann sagt að það markmið megi ekki enda á höndum komandi kynslóða.
Xi sagði háttsettum embættismönnum á þriðjudaginn að öllum ráðum yrði beitt til að koma í veg fyrir sjálfstæði Taívans.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Undanfarin ár hafa Kínverjar beitt Taívan sífellt meiri þrýstingi með því markmiði að grafa undan vörnum ríkisins. Herafli Kína hefur sömuleiðis gengist mikla nútímavæðingu og uppbyggingu en Xi er sagður hafa skipað forsvarsmönnum hersins að vera tilbúnir fyrir mögulega innrás í Taívan árið 2027. Það ár mun marka aldarafmæli kínverska hersins.
Sjá einnig: Xi vill her í heimsklassa fyrir árið 2027
Talsmaður varnarmálaráðuneytis Kína sagði í gær her Kína myndi tryggja fullveldi ríkisins og landamæri þess. Var hann þar að gefa í skyn að herinn gæti gert innrás í Taívan og sagði hann versnandi samskipti Kína og Taívans vera Bandaríkjamönnum að kenna.

Sakaði hann Bandaríkjamenn um að nota Taívan til að „halda aftur af“ Kína. „Að leita sjálfstæðis með herafli mun ekki takast,“ sagði talsmaðurinn í gær, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Bandaríkjamenn eru meðal þeirra sem hafa heitið því að koma Taívan til aðstoðar verði gerð innrás í eyríkið. Það hafa yfirvöld í Japan einnig gert.
Báðu Biden um yfirlýsingu
NBC News sagði frá því á dögunum að þegar Xi fundaði með Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, í San Francisco í nóvember, hafi Xi sagt að Tavían muni sameinast meginlandi Kína. Það eigi bara eftir að ákveða hvenær.
Xi sagðist vilja sameina ríkin með friðsömum hætti og hefur NBC eftir heimildarmönnum sínum að kínverskir embættismenn hafi beðið Bandaríkjamenn um að gefa út yfirlýsingu um að Joe Biden studdi friðsamlega sameiningu Taívans og Kína og væri mótfallinn sjálfstæði Taívan.
Þeirri beiðni var hafnað.
Hernaðaruppbygging í Kína hefur að miklu leyti snúist að því að byggja vopn og þróa aðferðir til að eldflaugaárásir á herstöðvar Bandaríkjanna í vesturhluta Kyrrahafsins og granda flugmóðurskipum.
Samhliða aukinni getu Kínverja hefur hernaðarmáttur Taívans dregist saman á undanförnum árum. Þessari þróun vilja yfirvöld í Taívan snúa við, meðal annars með því að auka hergagnaframleiðslugetu Taívans og auka sjálfbærni.
Geri Kínverjar innrás í Tavían þyrftu þeir að flytja mikinn herafla yfir Taívan-sund og yrði það líklega að miklu leyti gert á skipum. Sú sigling yrði 130 kílómetra löng og Taívanar hafa haft sjötíu ár til að undirbúa varnir sínar og víggirða þá fáu staði þar sem hægt væri að lenda umfangsmiklum herafla.