Þetta kemur fram í Facebook-færslu frá Þórdísi. Þar segist hún hafa óskað skýringa á málinu frá Bankasýslu ríkisins, en hún heldur um eignarhluti ríkisins í bankanum.
Tilkynnt var um fyrirhugaða sölu í dag. Í tilkynningu frá Kviku banka sagði að skuldbindandi boð frá Landsbankanum upp á 28,6 milljarða, þar sem fjárhæðin gæti breyst, fyrir TM hefði verið samþykkt.
Í færslu sinni fer Þórdís yfir stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að stjórnvöld muni halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða.
„Eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki er samhljóða og þar er meðal annars kveðið á um stuðla skuli að samkeppni í fjármálastarfsemi. Ég hef lagt mikla áherslu á að þessari stefnu sé fylgt eftir og á næstu dögum mæli ég fyrir um frumvarp um sölu eftirstandandi hlutar ríkisins í Íslandsbanka,“ segir Þórdís.
„Þrátt fyrir allt þetta mun Landsbankinn, sem er í tæplega 100% í eigu ríkisins en eigendastefna kveður á að draga eigi úr eignarhaldi ríkisins þar, að óbreyttu stækka og stíga afgerandi inn á nýjan markað með kaupum á stóru fyrirtæki á markaði, TM.“
Líkt og áður segir vill Þórdís meina ríkisfyrirtæki eigi ekki að kaupa tryggingafélög. Fjárfestingar ríkissins eigi að vera annars staðar og hún segist ekki vita til þess að neinn hafi kallað eftir því að tryggingafélög ríkisvæðist.
„Ríkisfyrirtæki á ekki að kaupa tryggingafélag. Ríkið á að losa um tugi milljarða og umbreyta þeim í samfélagslega innviði sem almenningur nýtur góðs af og byggir undir frekari verðmætasköpun og samkeppnishæfni allra landshluta. Kröftum okkar er betur borgið í öðrum fjárfestingum en í tryggingastarfsemi, sem af mér vitandi enginn hefur kallað eftir að sé í ríkisrekstri.“
Í lok færslu sinnar segir Þórdís að viðskiptin verði ekki samþykkt af sinni hálfu nema sala á Landsbankanum hefjist.
„Þessi viðskipti verða ekki að veruleika með mínu samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða. Ég hef óskað skýringa á málinu frá Bankasýslu ríkisins sem heldur um eignarhluti ríkisins í bankanum og setur almenn viðmið um áherslur í rekstri auk þess að fylgja eftir eigendastefnu ríkisins.“