Tillagan geri ráð fyrir því að vopnahlé verði komið á í þremur fösum. Í fyrsta fasa er gert ráð fyrir fangaskiptum og tímabundnu vopnahléi. Í öðrum fasa er gert ráð fyrir endalokum átakanna og að Ísraelar dragi herlið sitt alveg frá Gasa.
Þriðji fasi fjallar um uppbyggingu Gasasvæðisins sem lagt hefur verið í rúst síðustu mánuði. Tillagan var lögð fram af Biden þann 31. maí og hefur hann kallað hana Ísraelsfrumkvæðið eða á ensku Israeli initiative. Fram kemur í álykrun ráðsins að Ísrael hafi samþykkt tillöguna og eru Hamas samtökin hvött til að gera það líka.

Í tillögunni eru sett fram skilyrði fyrir fullu vopnahléi og um það hvernig eigi að standa að frelsun gíslanna sem enn eru í haldi Hamas. Þar er einnig fjallað um líkamsleifar þeirra gísla sem látist hafa í haldi þeirra og hvernig eigi að skila þeim. Þá er einnig fjallað um fangaskipti palestínskra fanga í haldi Ísraela.
„Í dag kusum við með friði,“ sagði sendiherra Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna, Linda Thomas-Greenfield, við öryggisráðið eftir atkvæðagreiðsluna. Fulltrúi Alsír, eina arabaríkisins í ráðinu eins og er, sagði að þau samþykktu hana því þau trúi að með tillögunni sé stigið skref í átt að varanlegu vopnahléi.
„Hún gefur Palestínumönnum örlitla von,“ sagði fulltrúi Alsír, Amar Bendjama, og að það væri kominn tími til að binda enda á drápin.
Halda áfram eins lengi og þörf er á
Fram kemur í frétt Reuters að í ályktun Öryggisráðsins sé farið ítarlega yfir tillögu Biden og tekið fram að ef samningaviðræður taki lengri tíma en sex vikur í fyrsta fasa eigi vopnahléið að halda áfram. Það eigi að halda áfram eins lengi og samningaviðræður fara fram.
Öryggisráðið krafðist þess í mars á þessu ári að vopnahléi yrði tafarlaust komið á. Þá krafðist ráðið þess einnig að öllum gíslum í haldi Hamas yrði sleppt. Samninganefnd frá Bandaríkjunum, Egyptalandi og Katar hefur í nokkra mánuði reynt að semja um vopnahlé. Hamas segir að þau vilja enda stríðið á Gasa fyrir fullt og allt og að Ísrael dragi allt herlið sitt til baka.
Talið er að allt að 37 þúsund Palestínumenn hafi látið lífið frá því í október á síðasta ári. Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín og eru á vergangi. Illa gengur að koma hjálpargögnum inn á svæðið og hafa hjálparstofnanir varað við yfirvofandi hungursneyð. Ísraelar réðust inn í landið á lofti og landi eftir að Hamas drápu 1.200 Ísraela og tóku 250 gísla. Enn eru um 100 gíslar í þeirra haldi á Gasa.