Halevi ávarpaði hermenn í norðanverðu Ísrael í dag þar sem hann sagði þeim að hlusta á dyninn í herþotunum yfir þeim.
„Við höfum gert árásir í allan dag. Þetta er bæði til að undirbúa mögulega innrás ykkar og til að grafa undan Hezbollah,“ sagði hann samkvæmt AP fréttaveitunni. Hann sagði einnig að Hezbollah hefðu í morgun gert árás lengra inn í Ísrael en áður og að seinna í dag yrði þeirri árás svarað.
Hezbollah skaut í dag skotflaug að Tel Aviv í fyrsta sinn. Skotflaugar kallast á ensku „Ballistic missile“ og þær virka á þann veg að þeim er skotið hátt upp í gufuhvolfið og sprengjuoddar þeirra falla svo hratt til jarðar og er erfitt að skjóta þá niður.
Ísraelum tókst það þó og er skotflaugin ekki sögð hafa valdið mannfalli né miklu tjóni.
Umfangsmiklar árásir Ísraela á Líbanon undanfarna daga hafa kostað minnst 560 manns lífið.
Sjá einnig: Enn einn leiðtogi Hezbollah felldur
Halevi gaf einnig í skyn að innrás væri í vændum, svo hægt væri að tryggja að fólk sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín í norðanverðu Ísrael vegna eldflaugaárása Hezbollah á undanförnum mánuðum geti snúið aftur heim.
Fyrr í dag gaf ísraelski herinn það út að verið væri að kalla út tvö stórfylki af varaliðsmönnum og þeir yrðu sendir til Norður-Ísrael. Þetta væri svo áðurnefnt fólk gæti snúið aftur til síns heima í norðurhluta landsins.

Hafa rifist um innrás
Undanfarna daga hafa háværar umræður átt sér stað innan ríkisstjórnar Benjamíns Netanjahú og á öðrum stigum ísraelskra stjórnvalda um stöðuna í norðanverðu landinu. Þar hafa sjötíu þúsund manns ekki getað snúið til síns heima, vegna linnulausra eldflauga- og drónaárása frá Hezbollah í Líbanon.
Netanjahú hefur sagt að umfangsmiklar breytingar þurfi á stöðunni á landamærunum við Líbanon og hefur komið til tals að gera innrás í suðurhluta Líbanon og reka vígamenn Hezbollah til norðurs.
Sjá einnig: Herforingi kallar eftir innrás í Líbanon
Hezbollah-samtökin eru þó talin mun öflugri en Hamas, en bæði samtökin njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran. Vígamenn Hezbollah, sem taldir eru skipta þúsundum og vera tiltölulega vel þjálfaðir og reynslumiklir eftir langvarandi þátttöku í átökum í Sýrlandi, eru taldir sitja á tugum þúsunda eldflauga og annarskonar hergagna.