Erlent

Lýsa nóttinni sem skelfi­legri

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Árásirnar eru sagðar þær umfangsmestu frá því að átökin hófust.
Árásirnar eru sagðar þær umfangsmestu frá því að átökin hófust. AP/Mohammed Zaatari

Upphafi skólaárs hefur verið frestað í Líbanon vegna öryggisógnar í landinu. Íbúar í Beirút lýsa nóttinni sem skelfilegri vegna loftárása Ísraelsmanna sem eru sagðar þær umfangsmestu á svæðinu frá upphafi átakanna.

Loftárásir Ísraelsmanna héldu áfram á Beirút, höfuðborg Líbanon í nótt og í morgun. Árásirnar voru gerðar á svæði í borginni sem er þekkt sem vígi Hezbollah samtakanna.

„Þetta var ógnarnótt. Eina lausnin er að árásum linni eins fljótt og auðið er,“ segir Maxime Jawad, íbúi í Beirút.

Hörmuleg nótt

„Hvers á fólkið að gjalda? Og þessi börn sem dóu? Við stöndum uppi allslaus, við höfum ekkert. Ekkert, engin hús, engar búðir, alls ekkert,“ segir Denise Matar, íbúi í Beirút.

„Þetta var hörmuleg nótt, hún var mjög erfið. Allir í Beirút heyrðu allt. Þeir sem búa nær og þeir sem eru enn í úthverfunum standa auðvitað frammi fyrir enn meiri hörmungum,“ segir Haytham Al-Darazi, íbúi í Beirút.

Skólahaldi frestað

Ástandið er sagt aldrei hafa verið jafn slæmt síðan átökin hófust. Menntamálaráðherra Líbanon gaf það út í dag að upphafi skólaárs verði frestað vegna öryggisógnar í landinu.

Nítján ára lögreglufulltrúi var drepin og fjölmargir særðust í skotárás á strætóstoppistöð í Ísrael. Lögreglu grunar að um hryðjuverk hafi verið að ræða og hefur árásarmaðurinn verið drepinn.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasasvæðinu létust minnst tuttugu og sex lífið í loftárásum Ísraelsmanna á mosku og skóla á svæðinu í nótt. Ísraelsher sagði að skotum beggja árása hafa verið beint að Hamasliðum en í frétt AP segir að ekki hafi fengist sönnun fyrir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×