Erlent

Vara við hvirfilbyljum á Bret­lands­eyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rauða viðvörun morgundagsins nær til norðurhluta Íralnds og Skotlands.
Rauða viðvörun morgundagsins nær til norðurhluta Íralnds og Skotlands. Veðurstofa Bretlands

Breskir veðurfræðingar hafa gefið út rauða viðvörun á norðurhluta Írlands og í Skotlandi vegna öflugrar lægðar sem liggur vestur af Bretlandseyjum. Búist er við mjög öflugum vindhviðum á Bretlandseyjum á morgun og hefur einnig verið varað við mögulegum hvirfilbyljum vegna lægðarinnar.

Appelsínugular og gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir allt England og Skotland á morgun.

Óveður þetta kallast Eowyn og mun töluverð rigning og snjókoma fylgja því. Búist er við því samkvæmt Sky News að „mjög hættulegar“ aðstæður muni skapast og er talið að óveðrið muni leiða til mikilla truflana.

Búist er við um fjörutíu m/s vindhviðum vegna Eowyn.

Í tilkynningu á vef Veðurstofu Bretlandseyja segir að þetta sé í fyrsta sinn sem rauð viðvörun sé gefin út fyrir norðurhluta Írlands, frá því litakerfið var tekið í notkun árið 2011. Haft er eftir yfirmanni spádeildar veðurstofunnar að rauðar viðvaranir séu eingöngu gefnar út þegar talið sé að veður geti ógnað mannslífum og valdið miklum truflunum. Það eigi við á morgun.

Evrópskir veðurfræðingar hafa varað við hættu á hvirfilbyljum vegna óveðursins.

Sky segir búist við því að vegum verði lokað víða og það sama eigi við lestaferðir um norðanvert England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×