Erlent

Mexíkóar fram­selja 29 stórglæpamenn til Banda­ríkjanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Caro-Quintero er sagður hafa staðið að ráninu á Enrique "Kiki" Camarena, sem var pyntaður og myrtur árið 1985.
Caro-Quintero er sagður hafa staðið að ráninu á Enrique "Kiki" Camarena, sem var pyntaður og myrtur árið 1985. FBI

Yfirvöld í Mexíkó framseldu í gær 29 morðingja og háttsetta leiðtoga fíkniefnagengja til Bandaríkjanna. Einn þeirra hefur verið eftirlýstur í Bandaríkjunum í 40 ár.

Stjórnvöld í Mexíkó hafa sætt miklum þrýstingi eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tók embætti í janúar og meðal annars verið hótað með háum tollum. Trump vill sjá Mexíkóa gera meira til að stemma stigu við flæði eiturlyfja yfir landamærin.

Svo virðist sem aðferðir Trump séu að bera árangur en samkvæmt New York Times eru aðgerðirnar í gær einar veigamestu aðgerðir sem yfirvöld í Mexíkó hafa ráðist í frá því að stríðið gegn fíkniefnum hófst.

Meðal þeirra sem flogið var með til Bandaríkjanna í gær var Rafael Caro-Quintero, einn stofnenda Sinaloa-fíkniefnagengisins, sem var dæmdur í Mexíkó fyrir að leggja á ráðin um morðið á Enrique Camarena árið 1985.

Þegar Camarena var myrtur hafði hann nýlega átt aðkomu að umfangsmiklum aðgerðum gegn milljarð dala marjúanaræktun í Mexíkó.Getty/Kypros

Camarena starfaði fyrir Drug Enforcement Administration (DEA) og Caro-Quintero hefur verið eftirlýstur í Bandaríkjunum í 40 ár. Það vakti miklar reiði vestanhafs þegar Caro-Quintero var sleppt í Mexíkó árið 2013 en hann var handtekinn á ný árið 2022.

Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu í gær að Trump hefði verið mjög skýr í þeirri afstöðu sinni að fíkniefnagengin væru hryðjuverkahópar og að ráðuneytið væri staðráðið í því að vinna á þeim.

Aðrir sem voru fluttir til Bandaríkjanna voru til að mynda bræðurnir Miguel Angel Treviño og Omar Treviño, stofnendur Zetas-gengisins, og José Ángel Canobbio Inzunza, hægri hönd Iván Archivaldo Guzmán Salazar, sonar Joaquín Guzmán Loera.

Síðarnefndi er betur þekktur undir viðurnefninu El Chapo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×