Upp­gjör: Stjarnan-Hamar/Þór 72-78 | Þrenna hjá Beeman í mikil­vægum sigri

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Abby Beeman var með þrennu hjá Hamri/Þór í kvöld,
Abby Beeman var með þrennu hjá Hamri/Þór í kvöld, Vísir/Anton Brink

Stjarnan tók á móti Hamar/Þór í kvöld í Bónus deild kvenna. Hamar/Þór vann leikinn 72-78 í leik sem gestirnir voru með yfirhöndina allan leikinn. Stjarnan gerði sitt besta í loka leikhlutanum til þess að stela sigrinum og þær komust mjög nálægt því þegar þær minnkuðu muninn í 70-72 en endurkoman varð ekki meiri en svo.

Fyrri hálfleikurinn fór hratt af stað þar sem Kristrún Ríkey setti þrist fyrir Hamar/Þór í fyrstu sókn. Þessi byrjun lýsti hálfleiknum nokkuð vel, þar sem Hamar/Þórs konur voru töluvert betra liðið. Abby Beeman var þar langfremst í flokki og átti stórkostlegan leik. Það var hinsvegar barátta í Stjörnukonum og þær hleyptu gestunum ekkert of langt frá sér í fyrsta leikhluta en staðan eftir tíu mínútur 19-23.

Annar leikhlutinn hófst næstum alveg eins og sá fyrri en þá var það Jóhanna Ýr sem setti þristinn fyrir Hamar/Þór. Leikurinn hélt áfram að spilast nokkuð svipað og í fyrsta leikhlutanum þar sem gestirnir voru betri en Stjarnan var alltaf inn í leiknum. Þangað til kom að loka mínútum hálfleiksins en þá byrjaði Hamar/Þór að slíta sig meira frá Stjörnunni og lokatölur fyrri hálfleiks voru 32-43. Abby Beeman hélt áfram að vera með sýningu en hún endaði hálfleikinn með 14 stig og 10 stoðsendingar.

Hamar/Þór byrjaði þriðja leikhlutan vel og eftir fimm mínútur af seinni hálfleiknum voru þær búnar að auka forskotið í 15 stig. Stjarnan kom hinsvegar töluvert til baka eftir góðan kafla þar sem þær náðu að minnka muninn niður í átta stig á 29. mínútu. Leikhlutinn endaði í stöðunni 52-61, Stjarnan vann því leikhlutan með tveimur stigum og útlit fyrir að Stjörnukonur væru farnar að komast í gírinn.

Fjórði leikhlutinn fór hægt að stað þar sem liðin skiptust á að missa boltan, og setja eina og eina körfu niður. Um miðbik leikhlutans fór hinsvegar Stjarnan á alvöru skrið, þær spiluðu aggressíva vörn og voru að refsa gestunum ítrekað fyrir mistökin sín. Þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir höfðu Stjörnukonur náð að minnka muninn í tvö stig og góður möguleiki að þær gætu stolið sigrinum. Þá var hinsvegar eins og pressan varð of mikil og þær náðu aldrei að jafna leikinn, heldur skiptust liðin á stigum þar til Hamar/Þór negldi síðasta naglann í kistuna á loka sekúndunum. Lokatölur 72-78.

Atvik leiksins

Þristurinn sem Abby Beeman setur þegar nokkrar sekúndur eru eftir af leiknum var gríðarlega mikilvægur. Þetta var rothöggið sem kláraði Stjörnuna.

Stjörnur og skúrkar

Abby Beeman var stórkostleg í kvöld. Hún var með 32 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingar, langbesti leikmaður vallarins. Denia Davis-Stewart var best fyrir Stjörnuna en hún var með 27 stig og 20 fráköst. Það átti enginn roð í hana undir körfunni í kvöld.

Enginn rosalega áberandi skúrkur í þessum leik, nema mögulega varnarleikur Stjörnunnar sem heild. Þær áttu engin svör við Abby Beeman sem kostaði þær leikinn.

Dómararnir

Vel dæmdur leikur í kvöld hjá þríeykinu. Ég tók ekki eftir neinu sérstöku sem þyrfti að setja út á.

Stemning og umgjörð

Það var afskaplega fámennt í Umhyggjuhöllinni í kvöld. Það voru mögulega örlítið fleiri á varamannabekkjum liðana heldur en upp í stúku og því öll stemning sem myndaðist, aðallega inna beggja liða. Svona mikilvægur leikur fyrir bæði lið kallar á aðeins betri stuðning.

Abby Beeman hjá Hamar/ÞórVísir/Anton Brink

„Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að ég er hér“

Abby Beeman átti frábæran leik í kvöld fyrir Hamar/Þór. Hún tók liðið á sínar herðar á köflum og stjórnaði leiknum frá fyrstu mínútu.

„Við vissum öll að þetta væri stór leikur fyrir okkur og við þurftum á sigri að halda, þannig mér fannst við koma inn í leikinn með gott orkustig. Við þurfum auðvitað að vera alltaf í jöfnum leikjum, en ég var bara ánægð með að við gátum klárað leikinn,“ sagði Abby Beeman.

Hamar/Þór var með yfirhöndina mest allan leikinn, en þær voru mjög nálægt því að missa sigurinn frá sér í lok leiksins.

„Það er klárlega svið sem við þurfum að bæta okkur í, það er að spila í forskoti og að hleypa ekki andstæðingnum aftur inn í leikinn. Ég hef samt alltaf trú á liðið og sjálfa mig, þannig ég var bara ánægð með að við stóðumst prófið í endan og náðum í sigurinn,“ sagði Beeman.

Abby tók þriggja stiga skot þegar Hamar/Þór var tveimur stigum yfir og bara einhverjar sekúndur eftir af leiknum. Það reyndist vera rothöggið fyrir Stjörnuna.

„Ég er búinn að æfa þetta skot hundruð þúsundir skipta í gegnum minn feril þannig þetta var bara eitt annað skot. Ég hafði því fulla trú á sjálfum mér þegar ég tók skotið, ég bara vonaðist til að það myndi detta og sem betur fer gerði það, það,“ sagði Beeman.

Abby tók yfir leikinn á köflum og var allt í öllu. Greinilega mikill leiðtogi þarna á ferð en hún segist vinna mikið í þeim hlutum leiksins.

„Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að ég er hér, í þessu liði. Til að taka yfir leiki á stórum augnablikum eða í byrjun leiks. Ef leikurinn byrjar að fara frá okkur þá mun ég reyna mitt besta að gera eitthvað gott. Eins og ég segi þá legg ég hart að mér þannig ég hef fulla trú að þegar stóru augnablikin koma, þá geti ég staðið undir þeim,“ sagði Beeman.

Hákon Hjartarson þjálfari Hamars/Þórs.Vísir/Anton Brink

„Maður er svo trúgjarn, maður trúir á deja vu“

Hamar/Þór vann í kvöld mikilvægan sigur gegn Stjörnunni 72-78. Lokamínúturnar voru gríðarlega spennandi en Hákon Hjartarson þjálfari liðsins var ánægður með frammistöðu sinna kvenna.

„Það var bara frábært að koma hérna í Ásgarð að vinna þetta sterka og vel þjálfaða lið. Ég er bara mjög ánægður með stelpurnar mínar,“ sagði Hákon.

Hamar/Þór var með yfirhöndina allan leikinn fram að lokakaflanum í fjórða leikhluta. Þá komu Stjörnu konur af fullum krafti og voru nálægt því að stela sigrinum.

„Maður er svo trúgjarn, maður trúir á deja vu og eitthvað svona. Undanfarnir tveir leikir hafa verið þannig, við töpum fyrir Aþenu þegar við erum fjórum stigum eftir og 30 sekúndur eftir. Við gerðum líka heiðarlega tilraun að klúðra Tindastóls leiknum um helgina. Þannig það fór auðvitað um mann. En þegar Abby setur þristinn þá róaðist maður aðeins,“ sagði Hákon.

Abby Beeman átti algjöran stjörnuleik fyrir Hamar/Þór í kvöld þar sem hún setti 32 stig, 13 fráköst og var með 12 stoðsendingar. Gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir þetta lið.

„Hún er bara sturlaður karakter líka, hún er að þjálfa hjá okkur og maður þarf stundum aðeins að klípa í hana til að athuga hvort hún sé lifandi. Manni finnst ekki renna í henni blóðið, eina skiptið sem hún verður reið, það er þegar hún tapar. Hún hatar ekkert meira en að tapa. Stelpurnar græða líka mikið á þessu, þær eru fá opnari skot af því það er verið að reyna að stoppa hana,“ sagði Hákon.

Þrír úrslitaleikir eftir

Framundan eru gríðarlega mikilvægir leikir fyrir Hamar/Þór, þar sem þær munu keppa í undanúrslitum bikarsins. Auk þess sem það er aðeins einn leikur eftir af deildarkeppni þar sem úrslitakeppnissæti er í húfi.

„Við förum og gerum okkur klára fyrir undanúrslit í bikar, svo eigum við Grindavík í síðustu umferð. Það verður duga eða drepast leikur. Við erum komin með innbyrðis á Tindastól og Stjörnuna en erum jöfn þeim að stigum,“ sagði Hákon.

Tveir gríðarlega mikilvægir leikir framundan en Hákon vill helst hafa þá þrjá.

„Við eigum reyndar þrjá úrslitaleiki eftir áður en úrslitakeppnin byrjar. Það er ss. undanúrslit í bikar, úrslitin í bikar og svo einn úrslitaleikur í deildinni,“ sagði Hákon.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira