Erlent

Lit­háar saka rúss­nesku leyni­þjónustuna um í­kveikju í Ikea

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS

Litháískir saksóknarar saka rússneska leyniþjónustuna um að hafa kveikt í Ikea verslun í höfuðborg Litháen. Saksóknararnir kalla verknaðinn hryðjuverk.

Kveikt var í Ikea verslun í Vilníus, höfuðborg Litháen, í maí árið 2024. Tveir úkraínskir menn voru handteknir, annar í Litháen en hinn í Póllandi.

„Við álítum þetta sem hryðjuverkaárás,“ segir Arturas Urbelsi saksóknari í Litháen. 

Í gegnum marga milligöngumenn kom í ljós að skipuleggjendur glæpsins eru Rússar með tengsl við leyniþjónustu hersins og öryggissveitir þar í landi.

Í yfirlýsingu frá saksóknara kemur fram að á leynifundi í Varsjáv, höfuðborg Póllands, hafi Úkraínumennirnir tveir samþykkt að kveikja í og sprengja upp verslunarmiðstöðvar í Litháen og Lettlandi gegn greiðslu upp á tíu þúsund evrur. Það samsvarar tæpri einni og hálfri milljón íslenskra króna.

„Það hefur verið kveikt í fleiri en einni matvöruverslun, og ekki einungis matvöruverslunum,“ sagði Urbelis í umfjöllun The Guardian.

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sagði það svívirðilegt af Rússum að ráða Úkraínumenn til að framkvæma skemmdarverk. Hann sagði einnig að það væri gott að vita af þessu fyrir samningaviðræður um vopnahlé í átökunum milli Úkraínumanna og Rússa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×