Skoðun

Fram­tíð menntunar – byggjum á trausti, ekki tor­tryggni

Helga Kristín Kolbeins skrifar

Yfirlýsingar félags- og húsnæðismálaráðherra um helgina hafa vakið verulega athygli. Þar heldur Inga Sæland því opinberlega fram að Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtskóla, hafi mögulega gerst sekur um trúnaðarbrest. Ársæll hefur sjálfur lýst þessum aðdróttunum sem mjög ósmekklegum og telur að þær vegi að sínum starfsheiðri.

Þegar ráðherra efast opinberlega um fagmennsku skólameistara án staðfestra upplýsinga eða formlegrar málsmeðferðar, er ekki aðeins vegið að einstaklingi heldur trausti til skólasamfélagsins í heild. Það hefur áhrif langt út fyrir einstaka skóla – á allt menntakerfið og þá menningu sem við viljum rækta í samskiptum við börn, foreldra og starfsfólk.

Samhliða þessari umræðu hefur fjármálaáætlun mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrir árin 2026–2030 verið kynnt, þar sem gert er ráð fyrir lækkun útgjaldaramma framhaldsskólastigsins um 2,5 milljarða króna. Þetta gerist á sama tíma og sett eru háleit markmið um að efla starfsnám, bæta íslenskukennslu, styðja betur við fjölbreytta nemendahópa og fjölga útskrifuðum nemendum.

Framhaldsskólar landsins takast nú þegar á við sífellt flóknari verkefni. Þeir sinna fjölbreyttum nemendahópi, innleiða nýjar námsbrautir og vinna markvisst að inngildingu, jöfnuði og vellíðan nemenda. Í slíku samhengi er niðurskurður ekki einfalt hagræðingarmál heldur þróun sem getur ógnað bæði gæðum náms og starfsumhverfi innan skólanna.

Við skólameistarar erum tilbúin til að leiða umbætur og þróun. En það verður að byggja á traustu og áreiðanlegu rekstrarumhverfi, trúnaði og gagnkvæmri virðingu. Þegar dregið er úr fjármögnun og forystufólk í skólum verður fyrir opinberum ásökunum án málsmeðferðar, sendir það röng skilaboð – bæði til þeirra sem starfa innan skólanna og þeirra sem treysta þeim til verksins.

Við köllum eftir því að markmið menntastefnunnar verði studd af raunhæfum fjárframlögum og yfirvegaðri umræðu.

Aðeins þannig getum við byggt framtíðarmenntun sem hvílir á fagmennsku, trausti og stöðugleika – fyrir nemendur, kennara og þá framtíð sem við byggjum saman.

Höfundur er formaður Skólameistarafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×