Upp­gjörið: Stjarnan - ÍR 101-83 | Stjarnan steig á bensín­gjöfina í síðari hálf­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson fór fyrir Stjörnuliðinu í sigri á ÍR í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson fór fyrir Stjörnuliðinu í sigri á ÍR í kvöld. Vísir/Pawel

Stjarnan er komin í 1-0 í einvígi liðsins gegn ÍR í 8-liða úrslitum Bónus-deildar karla eftir öruggan sigur í Garðabænum í kvöld. Liðin mætast á nýjan leik í Breiðholtinu á mánudag.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af gríðarlegum ákafa, spiluðu hörkuvörn og voru skynsamir sóknarlega með Ægi Þór Steinarsson öflugan í bílstjórasætinu. Heimamenn komust í 11-0 áður en ÍR náði að svara og þá var það bara Jacob Falko sem náði að skora stig en hann skoraði fyrstu átta stig gestanna.

Það var hart tekist á í Garðabænum.Vísir/Pawel

ÍR-ingar náðu hins vegar að koma sér hægt og rólega inn í leikinn. Þeir minnkuðu muninn í 30-22 með síðustu körfu fyrri hálfleiks og byrjuðu síðan annan leikhluta frábærlega og náðu að minnka muninn niður í tvö stig.

Jacob Falko var allt í öllu í sóknarleik ÍR og var kominn með 27 stig áður en fyrri hálfleikur var á enda. Stjörnumenn lokuðu algjörlega á þriggja stiga skot Matej Kavas sem hefur verið mikilvægur þáttur í sóknarleik ÍR í vetur og voru einnig öflugur í sóknarfráköstum með Shaquille Rombley fremstan í flokki.

Ægir Þór Steinarsson stýrði sóknarleik Stjörnunnar vel.Vísir/Pawel

Staðan var 55-47 að loknum fyrri hálfleik eftir góðan lokakafla Stjörnunnar.

Í þriðja leikhlutanum hægðist á Jacob Falko og þar sem aðrir leikmenn ÍR voru í brasi að koma stigum á töfluna náði Stjarnan aðeins að bæta í forskotið. ÍR ætlaði sér greinilega að koma Matej Kavas inn í leikinn en það gekk illa Stjarnan náði mest ellefu stiga forskoti og voru með stjórnina. 

Shaquille Rombley var ÍR-ingum erfiður ljár í þúfu í leiknum.Vísir/Pawel

Í fjórða leikhlutanum stungu Stjörnumenn síðan af. Sóknarleikur ÍR var lélegur og Stjarnan refsaði grimmilega. Shaquille Rombley var eins og kóngur í ríki sínu í teigunum og eftir að Zarko Jukic fór af velli áttu ÍR-ingar ekki séns í baráttunni þar. Forystan varð mest 20 stig og að lokum vann Stjarnan öruggan sigur, lokatölur 101-83.

Hilmar Smári Henningsson reynir að komast framhjá Dani Koljanin.Vísir/Pawel

Atvik leiksins

Það er erfitt að tína til eitt atvik úr svona leik. Zarko Jukic datt út snemma í seinni hálfleik með fimm villur og það var ekki gott fyrir ÍR. Hálfleiksræða Baldurs þjálfara Stjörnunnar hefur svo væntanlega verið öflug því eftir hana fundu Stjörnumenn að einhverju leyti leið til að stoppa Jacob Falko.

Stjörnur og skúrkar

Jacob Falko var magnaður hjá ÍR og lauk leik með 41 stig. Sóknarhæfileikar hans eru óumdeildir en ÍR þurfti framlag frá fleirum en honum. Hákon Örn og Oscar Jörgensen áttu ágæta spretti en þar með er það eiginlega upptalið.

Jakob Falko var magnaður í liði ÍR og skoraði 41 stig.Vísir/Pawel

Hjá Stjörnunni var Ægir Þór afar góður og Shaquille Rombley fór illa með ÍR í fráköstunum og tók 19 fráköst og þar af 9 sóknarfráköst auk þess að skora 27 stig. Júlíus Orri Ágústsson skilaði sömuleiðis góðu framlagi fyrir Garðbæinga.

Dómararnir

Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Jakob Arnar Ísleifsson sáu um dómgæsluna í kvöld. Þeir dæmdu leikinn vel en það var ansi skrýtið í fyrri hálfleiknum þegar þeir fóru í skjáinn eftir pöntun frá Baldri þjálfara Stjörnunnar.

Dómarar leiksins ræða málin.Vísir/Pawel

Atvikið kallaði alls ekki á skoðun í sjónvarpi og ef línan verður þarna hvað þetta varðar verður skjátími dómara ansi mikill í þessari úrslitakeppni.

Stemmning og umgjörð

Það var ágæt mæting í Garðabæinn í kvöld. Ghetto Hooligans mætti með læti töluvert fyrir leik en Silfurskeiðin lét aðeins bíða eftir sér. Stuðningsmannasveitirnar héldu síðan uppi fínni stemmningu og sungu söngva um eigin leikmenn sem og andstæðinganna.

Stuðningsmenn Stjörnunnar fögnuðu vel í leikslok.Vísir/Pawel

Það er þó alveg ljóst að það komast fleiri fyrir í Ásgarði og vonandi verður fullt hús í Breiðholtinu þegar liðin mætast á mánudagskvöld.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira