Her Ísrael segir vígamenn Hamas hafa rekið stjórnstöð í sjúkrahúsinu þar sem árásir á Ísraela hafi verið skipulagðar. Þá segja talsmenn hersins að skref hafi verið tekin til að koma í veg fyrir mannfall meðal óbreyttra borgara.
Myndbönd af vettvangi sýna mikið eldhaf við sjúkrahúsið en Ísraelar eru sagðir hafa hringt í lækni á sjúkrahúsinu um tuttugu mínútum fyrir árásirnar og sagt honum að láta tæma sjúkrahúsið hið snarasta. Þau hefðu tuttugu mínútur til að flýja.
Í frétt Breska ríkisútvarpsins segir að sjúklingar og fólk sem hafi leitað skjóls á sjúkrahúsinu hafi þurft að flýja.
Israel destroyed yet another hospital in Gaza. pic.twitter.com/yAMHaajVjX
— Clash Report (@clashreport) April 13, 2025
Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar eru sjúkrahús vernduð af alþjóðasamþykktum og þó árásir á þau séu tíð í átökum, sé slíkum árásum iðulega lýst sem mistökum. Ísraelar hafa frá upphafi aðgerða þeirra á Gasa gert vísvitandi árásir og áhlaup á sjúkrahús á Gasa og hafa sakað Hamas um að nota þau í hernaðarlegum tilgangi.
Þessar nýjustu árásir voru gerðar nokkrum klukkustundum eftir að Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, lýsti því yfir að Ísraelar ætluðu að auka enn frekar árásir á Gasa og flytja íbúa á brott frá átakasvæðum.
Sjá einnig: Ætla í „öfluga“ yfirtöku á Gasaströndinni
Ísraelar hafa einnig umkringt borgina Rafah á suðurhluta Gasa. Markmið þessara aðgerða er sagt vera að þrýsta á leiðtoga Hamas til að sleppa þeim 54 gíslum sem vígamenn eru taldir halda enn en 24 þeirra eru taldir vera á lífi. Markmiðið mun einnig vera að þvinga Hamas til að samþykkja nýja skilmála vopnahlés.
Vopnahlé náðist í janúar en Ísraelar hófu aftur árásir á Gasa þann 18. mars. Síðan þá hafa að minnsta kosti 1.563 fallið í árásum Ísraela, samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Gasa sem stýrt er af Hamas. Rúmlega fimmtíu þúsund manns hafa fallið í árásum Ísraela á Gasa frá því árásirnar hófust í október 2023.