Dramatík í Manchester

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nunes fagnaði eðlilega sigurmarkinu vel og innilega.
Nunes fagnaði eðlilega sigurmarkinu vel og innilega. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Manchester City vann dramatískan 2-1 sigur á Aston Villa í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeild karla. Leikurinn gæti skipt gríðarlega miklu máli er kemur að baráttunni um Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð.

Bernardo Silva kom heimamönnum yfir strax á 7. mínútu með föstu skoti sem fór þó beint á Emiliano Martínez í marki Aston Villa. Markverðinum tókst ekki að slá boltann frá heldur sló hann niður í jörðina og rak síðan að því virðist fótinn í boltann með þeim afleiðingum að Man City var komið yfir.

Tíu mínútum síðar fengu gestirnir vítaspyrnu eftir að Rúben Dias var dæmdur brotlegur innan vítateigs. Þurfti bæði myndbandsdómara og aðaldómara leiksins til að skera úr um hvort vítaspyrnu væri að ræða. Það hafði engin áhrif á Marcus Rashford sem tók eitt lengsta aðhlaup síðari ára og skoraði af öryggi. 

Staðan orðin 1-1 og þannig var hún allt fram í uppbótartíma leiksins. Fjölmargt stuðningsfólks Man City var þegar farið heim þegar Jérémy Doku óð upp að endalínunni vinstra megin, fyrirgjöf hans var föst en fór í gegnum þvöguna fyrir framan markið. Matheus Nunes kom hins vegar á ferðinni og tókst að skora það sem reyndist sigurmarkið úr einkar þröngu færi.

Sigurinn lyftir Man City upp í 3. sætið með 61 stig að loknum 34 leikjum. Villa er í 7. sæti með 57 stig eftir jafn marga leiki. Nottingham Forest er í 4. sæti með 60 stig, Newcastle United er í 5. sæti með 59 stig og Chelsea kemur þar á eftir með 57 stig. Öll þessi lið eiga leik til góða á liðin tvö sem spiluðu í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira