Erlent

Vilja breyta mann­réttindasátt­mála til að auð­velda sér að sparka inn­flytj­endum úr landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Jafnaðarkonan Mette Frederiksen (t.h.) og hægrijaðarkonan Giorgia Meloni (t.v.) eru fremstar í flokki þeirra sem vilja fá aukið frelsi til að reka innflytjendur úr landi.
Jafnaðarkonan Mette Frederiksen (t.h.) og hægrijaðarkonan Giorgia Meloni (t.v.) eru fremstar í flokki þeirra sem vilja fá aukið frelsi til að reka innflytjendur úr landi. Vísir/EPA

Danmörk er á meðal níu ríkja sem kalla opinberlega eftir því að mannréttindasáttmáli Evrópu verði túlkaður öðruvísi til þess að auðvelda þeim að vísa innflytjendum sem fremja glæpi úr landi. Þau telja túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu binda hendur sína óþarflega í þeim efnum.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, eru sagðar hafa haft frumkvæði að opnu bréfi þar sem kallað er eftir því að Mannréttindadómstóllinn breyti túlkun sinni á sáttmálanum í gær. Hin ríkin sem skrifuðu undir bréfið voru Austurríki, Belgía, Tékkland, Eistland, Lettland, Litháen og Pólland.

„Það er mikilvægt að meta hvort að dómstólinn hafi í sumum tilfellum látið sáttmálann ná of langt í samanburði við upphaflega ætlun hans og þar með breytt jafnvæginu á milli þeirra hagsmuna sem á að verja,“ segir í bréfinu.

Túlkun MDE hafi ennfremur takmarkað getu ríkjanna til þess að taka pólitískar ákvarðanir um innflytjendastefnu sína. Sérstaklega vilja ríkin níu fá aukið frelsi til þess að vísa erlendum ríkisborgurum úr landi og að grípa til aðgerða gegn ríkjum sem beiti innflytjendum sem vopni gegn þeim.

Nokkur Evrópuríki hafa sakað rússnesk og hvítrússnesk stjórnvöld um að senda förufólk að landamærum þeirra til þess að skapa glundroða og ala á sundrung.

Öll 46 aðildarríki Evrópuráðsins eiga aðild að mannréttindasáttmálanum sem var undirritaður árið 1950. Honum er ætlað að vernda mannréttindi og grundvallarfrelsi í álfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×