Erlent

Ekkja Navalní mót­mælir tón­leikum „náins vinar“ Pútín

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Valery Gergiev er sagður náinn vinur Vladimír Pútín. 
Valery Gergiev er sagður náinn vinur Vladimír Pútín.  EPA

Júlía Navalní, ekkja Alexei Navalní pólitísks andstæðings Vladimírs Pútín Rússlandsforseta, biðlar til ítalskra stjórnvalda að aflýsa tónleikum leiddum af rússneskum hljómsveitarstjórnanda sem er sagður nátengdur Pútín. 

Valery Gergiev er heimsfrægur hljómsveitarstjórnandi en hefur ekki komið fram á tónleikum í Evrópu utan Rússlands frá innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Gergiev hefur verið dyggur stuðningsmaður Pútín síðan á tíunda áratug síðustu aldar og í frétt Guardian segir að hann eigi í nánum tengslum við forsetann. 

Alexei Navalní lést í fangelsi í Síberíu í fyrra en hann var ötull baráttumaður gegn Rússlandsstjórn Pútín. Yfirvöld í Rússlandi sögðu hann hafa dáið úr veikindum en vestrænir þjóðarleiðtogar sögðu Pútín ábyrgan fyrir dauða Navalní.

Gergiev á að koma fram á tónleikum á Un’Estate tónlistarhátíðinni í Kampaníu í suðurhluta Ítalíu síðar í mánuðinum. Navalní og aðrir baráttusinnar leggjast hart gegn því að hann komi fram, en tónleikahaldarar um alla Evrópu hafa í sameiningu sniðgengið tónlistarfólk sem styður kremlinstjórn Pútíns. 

Gergiev var afbókaður á fjölda tónleika í Evrópu eftir innrás Rússa þar sem hann neitaði að fordæma Pútín vegna innrásarinnar. Síðustu tónleikar hans á Ítalíu fóru fram 23. febrúar 2022, nokkrum klukkustundum eftir 

Navalní segir að tónleikar Gergiev á Ítalíu yrðu eins og „gjöf til einræðisherrans“. Þá segir hún Gergiev bæði náinn vin Pútín og málpípu glæpsamlegrar stefnu hans. 

„Hræðilega stríðið í Úkraínu heldur áfram, fólk deyr á hverjum degi og Úkraínskar borgir brenna,“ sagði Navalní í viðtali á dögunum.

„Hvernig má það vera að sumarið 2025, þremur árum eftir upphaf stríðsins, sé Valery Gergiev, bandamaður Pútín sem er á sniðgöngulistum margra landa, boðið til Ítalíu til að koma fram á tónlistarhátíð?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×