Erlent

Evrópa sein með nýtt lofts­lags­mark­mið vegna óeiningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Tveir æðstu stjórnendur loftslagsmála hjá Evrópusambandinu, Wopke Hoekstra (t.v.) og Teresa Ribera (f.m.) á vikulegum fundi framkvæmdastjórnar sambandsins í Brussel í morgun.
Tveir æðstu stjórnendur loftslagsmála hjá Evrópusambandinu, Wopke Hoekstra (t.v.) og Teresa Ribera (f.m.) á vikulegum fundi framkvæmdastjórnar sambandsins í Brussel í morgun. Vísir/EPA

Óeining á meðal aðildarríkja Evrópusambandsins þýðir að það nær ekki að skila uppfærðu markmiði um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tilsettum tíma fyrir lok mánaðarins. Ríkin eru ekki sammála um hversu metnaðarfullt markmiðið eigi að vera.

Aðildarríki Parísarsamkomulagsins eiga að uppfæra losunarmarkmið sín til tíu ára á fimm ára fresti. Frestur til þess átti að vera fram í febrúar en fjöldi ríkja, þar á meðal Ísland, fékk frest út þennan mánuð.

Nú stefnir í að Evrópusambandinu takist ekki að skila uppfærðu markmiði til ársins 2035 á tilsettum tíma. Ástæðan er sú að aðildarríki þess hafa ekki komið sér saman um markmiðið og hvernig það eigi að nást, að sögn dagblaðsins Politico. Ríkin 27 þurfa að samþykkja markmiðið samhljóða.

Í stað formlega markmiðsins stefna Danir, sem fara með formennsku í ráðherraráði ESB þessa stundina, að því að umhverfisráðherrar ríkjanna samþykki viljayfirlýsingu til Sameinuðu þjóðanna. Í drögum anda að henni yrði lagður til 66,3 til 72,5 prósent samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2035, borið saman við losun árið 1990. Upphaflega stefni sambandið á að hærri talan yrði nýja markmiðið sem skilað yrði inn.

Hafa skamman tíma til að ná samkomulagi

Danir halda því fram að nýtt formlegt markmið verði tilbúið fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu í byrjun nóvember. Afar skammur tími er þó til stefnu fyrir Evrópuríkin að koma sér saman um það. 

Leiðtogar Evrópusambandsríkja ætla að koma saman 23. október áður en nýtt losunarmarkmið fyrir árið 2040 verður samþykkt. Þá verða aðeins tvær vikur í að loftslagsráðstefnan hefjist.

Framkvæmdastjórn ESB hefur þegar í reynd útvatnað metnað álfunnar til næstu fimmtán ára því ríkin fá nú í fyrsta skipti að útvista losunarmarkmiðum sínum til ríkja utan álfunnar með kaupum á kolefniseiningum. Þannig þyrftu ríkin ekki að ná öllum samdrættinum í losun innan eigin landamæra heldur gætu þau greitt fyrir loftslagsaðgerðir utan þeirra og talið þær fram í eigin losunarbókhaldi. Vísindaráð ESB sjálfs hefur harðlega gagnrýnt þessi áform.

Ísland hefur átt í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg um losunarmarkmiðin og skilað inn sameiginlegu markmiði þeirra til Parísarsamkomulagsins. Nýlega kom í ljós að íslenskum stjórnvöldum var ekki heimilt að gera markmið ESB að sínu og að þau þyrftu að skila inn sínu eigin framlagi. Umhverfisráðherra kynnti í síðustu viku áform um að senda inn markmið um 50 til 55 prósent samdrátt í losun fyrir árið 2035.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×