Erlent

Telja að mann­gerð hlýnun hafi valdið 16.500 viðbótar­dauðs­föllum í sumar

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona reynir að kæla sig í gosbrunni í miðborg Rómar í sterkri hitabylgju í byrjun júlí. Rauð viðvörun vegna hita var gefin út í fjölda ítalskra borga í hitabylgjunni.
Kona reynir að kæla sig í gosbrunni í miðborg Rómar í sterkri hitabylgju í byrjun júlí. Rauð viðvörun vegna hita var gefin út í fjölda ítalskra borga í hitabylgjunni. Vísir/EPA

Hnattræn hlýnun af völdum manna olli um það bil 16.500 viðbótardauðsföllum vegna hita í Evrópu í sumar samkvæmt mati hóps faralds- og loftslagsfræðinga. Það eru 68 prósent allra þeirra sem létust af völdum hita í álfunni.

Sumarið var það þriðja hlýjasta í mælingasögunni samkvæmt gögnum loftslagsstofnunar Evrópusambandsins. Áætlað er að loftslag í helstu stórborgum Evrópu sé nú 2,2 gráðum hlýrra en það var fyrir iðnbyltingu vegna stórfelldrar losunar mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti.

Alls voru 24.400 dauðsföll rakin beint til sumarhitans í ár í þeim 854 borgum sem rannsóknin náði til. Nærri sjötíu prósent þeirra sem létust eru talin hafa látist vegna þeirrar hlýnunar sem menn hafa valdið, a því er segir í frétt dagblaðsins Politico um rannsóknina.

„Þessar tölur tákna raunverulegt fólk sem lést undanfarna mánuði vegna ofsafengins hita. Margir hefðu ekki látist ef ekki væri fyrir loftslagsbreytingar,“ segir Friederike Otto, loftslagsvísindamaður við Imperial College London sem átti þátt í rannsókninni.

Garyfallos Konstantinoudis frá Grantham-loftlagsbreytingastofnuninni, segir að þó að hitabylgjur verði aðeins tveimur til fjórum gráðum heitari en ella geti það skilið á milli lífs og dauða fyrir þúsundir manna.

Langflestir þeirra sem létust voru 65 ára eða eldri. Það er sagt undirstrika þá hættu sem stafar af hlýnandi loftslagi í ljósi þess að Evrópuþjóðir eru að eldast að meðaltali. Flest dauðsföllin urðu á Ítalíu og Spáni, 4.597 í fyrrnefnda ríkinu en 2.841 í því síðarnefnda.

Dauðsföllin í Evrópu í sumar voru líklega enn fleiri en fram kemur í rannsókninni þar sem hún náði aðeins til borga með fleiri en fimmtíu þúsund íbúa í Evrópusambandsríkjum og Bretlandi. Um þrjátíu prósent íbúa álfunnar búa í þeim.

Þó að færri látist af völdum öfgahita í Norður-Evrópu segja rannsakendurnir að hærra hlutfall þeirra sem látast þar megi rekja beint til hnattrænnar hlýnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×