Upp­gjörið: Álftanes-Njarðvík 93-92 | Heitur Haukur var hetjan á Álftanesinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
David Okeke.
David Okeke. vísir/Anton

Álftanes komst aftur á sigurbraut í Bónus-deild karla með eins stigs sigri, 93-92, á Álftanesinu í kvöld. Heimamenn voru næstum búnir að kasta sigrinum frá sér.

Njarðvík byrjaði leikinn með miklum látum en Álftnesingar létu það ekki koma sér úr jafnvægi. Njarðvík hitti úr tíu af fyrstu ellefu skotum sínum í leiknum en það dugði ekki til þess að hrista Álftanes af sér.

Aðeins eins stigs munur eftir fyrsta leikhlutann og svo tók Álftanes yfir. Liðið náð frumkvæði sem það lét ekki aftur af hendi.

Smám saman breikkaði bilið og það benti allt til þess að Álftanes myndi innbyrða sannfærandi sigur er Njarðvík hrökk aftur í gang og fékk meira að segja möguleika til þess að vinna leikinn. Þeir töpuðu aftur á móti boltanum í lokin og Álftanes gat varpað öndinni léttar.

Það mátti þó ekki tæpara standa og lokamínútur leiksins hljóta að valda þjálfara Álftaness áhyggjum. Þá gat liðið ekki keypt körfu og stífnaði hrikalega upp.

Atvik leiksins

Lokasóknin hjá Njarðvík var atvik leiksins. Klúðurslegt. Njarðvíkingar ætluðu fyrst að biðja um leikhlé sem þeir áttu ekki inni og létu svo stela af sér boltanum.

Stjörnur og skúrkar

Haukur Helgi Pálsson er mættur aftur og það með stæl. Hann klikkaði aðeins á tveimur skotum út á velli allan leikinn. Smellti liðinu á bakið og sýndi allar sínar bestu hliðar.

Mario Matasovic verður að taka skúrkinn en hann hjálpaði sínu liði ekki mikið með því að fá fjórar villur í þriðja leikhluta. Það auðveldaði verkefnið fyrir heimamenn.

Dómararnir

Stóðu sig heilt yfir ágætlega og höfðu ekki áhrif á útkomu leiksins.

Stemning og umgjörð

Það var flott stemning hjá þeim sem mættu en mætingin var aftur á móti ekki upp á marga fiska. Slakasta mætingin í háa herrans tíð í Kaldalónshöllinni.

Kjartan Atli: Menn stífna aðeins upp

Kjartani Atla Kjartanssyni, þjálfara Álftaness, var létt eftir sigurinn í kvöld.

„Það fór auðvitað aðeins um mig í lokin. Við vorum samt að fá ágætis skot gegn svæðisvörninni. Það var klókt hjá Rúnari að fara í hana,“ sagði Kjartan kátur eftir leik.

„Það gerist oft ósjálfrátt á svona stundum að menn stífni aðeins upp. Menn fara aðeins öðruvísi í skotin. Þetta gefur okkur líka eitthvað til að fara yfir.“

Þó svo sigurinn hafi hangið á bláþræði í lokin þá gat Kjartan tekið margt jákvætt úr leiknum.

„Ég er ánægðastur með baráttuna. Við skorum 18 stig eftir sóknarfráköst. Njarðvík er með hörkulið og gerðu vel að koma til baka í lokin. Ég er því sáttur að labba burt með sigurinn.“

Rúnar Ingi: Þorðum ekki að vinna

Njarðvík mátti sætta sig við annað tap á skömmum tíma í Kaldalónshöllinni og það fannst Rúnari Inga Erlingssyni, þjálfara Njarðvík, sárt.

„Þetta tap sveið meira en í bikarnum um daginn. Núna áttum við tækifæri til að vinna og þetta er engum um að kenna nema okkur sjálfum,“ sagði Rúnar Ingi svekktur.

„Mario er með galopin þrist sem hann þorir ekki í. Sama í lokin. Við erum of lengi að velja hvað við ætlum að gera í stað þess gera það sem er einfalt. Þetta var fyrir okkur að taka þennan leik en við þorðum því ekki.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira