Erlent

Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra með krabba­mein

Kjartan Kjartansson skrifar
David Cameron á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í maí. Hann greindist með blöðruhálskirtilskrabbamein fyrr á þessu ári.
David Cameron á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í maí. Hann greindist með blöðruhálskirtilskrabbamein fyrr á þessu ári. Vísir/EPA

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er nú í meðferð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Hann greindi frá þessu í gær til þess að vekja aðra karlmenn til meðvitundar um sjúkdóminn.

Cameron, sem er 59 ára gamall, segist hafa farið í skoðun að áeggjan eiginkonu sinnar eftir að þau hlustuðu á viðtal við breskan kaupsýslumann sem greindist sjálfur með blöðruhálskirtilskrabbamein.

„Ég er ekki sérlega hrifinn af því að ræða persónuleg og viðkvæm heilsufarsmál mín en mér finnst að ég eigi að gera það,“ sagði Cameron við dagblaðið Times um veikindi sín.

Karlmenn væru ekki nógu duglegir að ræða heilsu sína og hefðu tilhneigingu til þess að slá málum á frest.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta tegund krabbameins í körlum á Bretlandi. Um 55.000 manns greinast með það árlega, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Cameron var leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands frá 2010 til 2016. Síðar var hann utanríkisráðherra í skammlífri ríkisstjórn Rishi Sunak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×