Erlent

Flug­ferðum af­lýst og hvatt til heima­vinnu vegna snjó­komu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það snjóaði líka hressilega í Danmörku fyrr í þessum mánuði. 
Það snjóaði líka hressilega í Danmörku fyrr í þessum mánuði.  EPA/HENNING BAGGER

Fjölda flug- og lestarferða hefur verið aflýst í Danmörku í dag og á sumum stöðum um landið er fólk sem það getur hvatt til að vinna heima þar sem það á við vegna snjóstorms sem gengur yfir landið í dag. Snjórinn byrjaði að falla í suðurhluta landsins í morgun en búist er við að veðrið gangi yfir stóran hluta landsins þegar líður á daginn.

Búist er við að sumstaðar gæti snjóað samfellt í allt að tólf klukkutíma í dag, og fallið gæti á milli tíu til tuttugu sentímetra djúpur snjór samkvæmt veðurspá danska ríkisútvarpsins, DR. Veðurviðvörun vegna snjókomu hefur verið gefin út sem gildir frá klukkan fjögur síðdegis að staðartíma til um klukkan sjö í fyrramálið.

Þegar hefur 24 ferðum frá flugvellinum í Kaupmannahöfn verið aflýst í dag vegna veðurs samkvæmt upplýsingum frá flugvellinum. Flestar ferðirnar sem um ræðir áttu að fara til Þýskalands í dag, meðal annars Frankfurt, Hamborgar, Berlín og Hannover. Snjókoman virðist þó ekki hafa áhrif á ferðir til Íslands í dag, en þegar þetta er skrifað eru tvær ferðir Icelandair enn á áætlun frá Kaupmannahöfn í dag. Þá hafa verið gerðar ráðstafanir á flugvellinum til að unnt verði að moka snjó af flugbrautum.

Lögreglan á Suður-Jótlandi hefur hvatt þá sem geta til að vinna heima, einkum í Sønderborg og Aabenraa þar sem allt að tuttugu sentímetra djúpur snjór gæti fallið. Þeir sem hins vegar hafi ekki tök á að vinna heima eru hvattir til að gera ráð fyrir lengri ferðatíma til og frá vinnu þar sem umferð gæti raskast.

Þá hefur DSB, sem rekur lestarkerfi landsins, fækkað ferðum til og frá Sjálandi í dag vegna snjókomunnar, þar á meðal lestarferðum á milli Kaupmannahafnar, Óðinsvéum, Kalundborgar, Hróaskeldu og Helsingør.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×