Breiðablik og KA munu leika til úrslita í Lengjubikar karla, en undanúrslitin fóru fram í dag. KA fór áfram eftir vítaspyrnukeppni, en Breiðablik vann Víking í venjulegum leiktíma.
Jón Vilhelm Ákason kom ÍA yfir í fyrri hálfleik, en KA jafnaði metin. Markið var sjálfsmark eftir hornspyrnu. Lokatölur eftir venjulegan leiktíma 1-1, en KA vann eftir vítaspyrnukeppni 4-2.
Athygli vekur að KA lenti í fimmta sæti í sínum riðli, en Leiknir Reykjavík og KR drógu sig úr keppni og því fór KA áfram í 8-liða úrslitin.
Breiðablik vann Víking 1-0, en Arnþór Ari Atlason skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik með þrumufleyg.
Breiðablik og KA mætast í úrslitaleiknum á fimmtudaginn í Kórnum.

