Morðin á hinni norsku Maren Ueland, 28 ára, og hinni dönsku Louisu Vesterager Jespersen, 24 ára, vöktu mikla athygli á sínum tíma og komu illa við samvisku heimsbyggðarinnar en í desember á síðasta ári réðust fjórir menn á ungu konurnar og myrtu þær með hrottafengnum hætti.
Þær Ueland og Jespersen voru saman á bakpokaferðalagi um landið og höfðu tjaldað í hlíðum Toubkal-fjalls í Atlasfjöllum suður af Marrakech. Þær fundust síðan látnar í hlíðum fjallsins mánudaginn 17. desember. Einn ódæðismannanna tók morðin upp á myndband en það fór síðar í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Frá upphafi var talið að fjórir hefðu ráðist á konurnar en hinn fjórði fékk ekki dauðarefsingu en hann hlaut aftur á móti lífstíðarfangelsi. Aðrir tuttugu voru ákærðir í tengslum við Marokkó-morðin en þeir hlutu ýmist 5-25 ára fangelsisdóma í dag. Fyrir dómi sögðust nokkrir þeirra vera saklausir. Eina ástæðan fyrir því að þeir hefðu verið ákærðir séu tengsl þeirra við höfuðpauranna.
Þrátt fyrir að mennirnir hafi hlotið dauðadóm í dag er alls óvíst að þeim dómi verði nokkurn tímann framfylgt. Þannig hefur enginn dauðadæmdur fangi verið tekinn af lífi í Marokkó frá árinu 1993 þrátt fyrir að um hundrað fangar sem hafa hlotið dauðadóm séu nú í fangelsum landsins.