Fótbolti

26 mörk í leikjum dagsins í Lengjubikarnum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pétur Theódór, til hægri, skoraði fyrir bæði lið í dag.
Pétur Theódór, til hægri, skoraði fyrir bæði lið í dag.

Sex leikir fóru fram í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta í dag, þrír í karlaflokki og þrír í kvennaflokki.

Í riðli 3 vann Stjarnan 2-3 sigur á Gróttu þar sem Pétur Theodór Árnason gerði tvö mörk fyrir Gróttu og eitt fyrir Stjörnuna þar sem hann gerði sjálfsmark en Hilmar Árni Halldórsson og Tristan Freyr Ingólfsson voru einnig á skotskónum fyrir Garðabæjarliðið.

Boðið var upp á tvíhöfða í Boganum á Akureyri þar sem KA vann HK 2-1 í Pepsi-Max deildar slag. Bjarni Gunnarsson kom HK yfir snemma leiks en Hallgrímur Mar Steingrímsson og Ásgeir Sigurgeirsson sáu um að tryggja KA sigur.

Þá er nýlokið leik Þórs og KR þar sem Vesturbæjarstórveldið hafði betur, 0-4, þar sem Pálmi Rafn Pálmason (vítaspyrna), Guðjón Baldvinsson, Óskar Örn Hauksson og Oddur Ingi Bjarnason voru á skotskónum.

Sjaldséð úrslit litu dagsins ljós kvennamegin þegar Íslandsmeistarar Breiðabliks gerðu 2-2 jafntefli við Fylki. Bryndís Arna Níelsdóttir kom Fylkiskonum í 0-2 en Vigdís Edda Friðriksdóttir og Karitas Tómasdóttir björguðu stigi fyrir Kópavogsliðið á lokamínútum leiksins.

Stjörnukonur unnu öruggan 3-1 sigur á Tindastól og þá vann Þór/KA 2-4 sigur á FH í Skessunni í Hafnarfirði þar sem María Catharina Gros Ólafsdóttir (2), Karen María Sigurgeirsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir komu Norðankonum í 0-4 áður en þær Esther Rós Arnarsdóttir (vítaspyrna) og Arna Sigurðardóttir löguðu stöðuna fyrir Hafnarfjarðarliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×