Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands, segir að með innreið streymisveitna séu ótal margar áskoranir sem blasi við höfundum.
„Það eru færri og færri krónur sem skila sér í vasa þeirra sem skapa hin raunverulegu verðmæti; skáldverkin, fræðiritin og þýðingarnar og þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri.“
Hún skynji að sömu áhyggjur hvíli þungt á kollegum hennar úti í heimi.
„Þetta er bara mjög einfaldlega raunveruleiki sem blasir við öllum að þegar stóru fyrirtækin hvort sem þau heita Amazon, Google eða Storytel eða hvað sem er, þegar þau koma á markaðinn þá eru þau fyrst og fremst viðskiptamódel sem eiga að skila eigendum sínum tekjum.“
Örmarkaðir séu sérstaklega viðkvæmir gagnvart stórum breytingum.
„Norðmenn skilgreina sig sem örmarkað í útrýmingarhættu og ég veit þá eiginlega ekki hvaða orð ég á að nota yfir okkur. Á okkar markaði eru bara svo fáir sem lesa þetta mál okkar að öll sala sem breytist á þann hátt að höfundurinn fær minni hlut hún bara skiptir rosalega miklu máli.“
Hljóðið sé afar þungt í kollegum hennar úti í heimi.
„Menn tala um bara að það séu færri og færri höfundar sem geti verið atvinnurithöfundar og þá erum við satt best að segja að stíga dálítið stórt skref aftur á bak.“
Hvaða þýðingu heldurðu að þetta hafi fyrir bókmenntaþjóðina Ísland þegar fram í sækir ef þetta heldur áfram svona?
„Mín persónulega skoðun er sú að það verði að vera stjórnsýsluleg ákvörðun að tryggja fjölbreytni í íslenskum bókmenntum vegna þess að ef við ætlum bara að vera með bókamarkað þar sem vinsælustu bækurnar skila einhverju, þar sem við gefum í rauninni ekki svigrúm fyrir ljóð, jaðarbókmenntir og barnabókmenntir eða bara allt annað en það sem selst rosalega vel, þá verðum við svo miklu, miklu, miklu fátækari.“